Eins og staðan er núna er Samfylkingin heldur ekki með mann inni í Reykjavík norður en Sigríður Ingibjörg Ingadóttir oddviti flokksins gæti dottið inn á lokametrunum sem jöfnunarþingmaður. Helgi Hjörvar núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar á hins vegar ekki möguleika á að komast á þing en hann skipaði 2. sætið á lista flokksins.

Kjörstjórnin í Reykjavík norður var sú fyrsta til að skila af sér lokatölum en ómögulegt er að segja til um hvenær úrslit kosninganna liggja fyrir.
Eins og tölurnar standa núna er Sjálfstæðisflokkurinn langstærsti flokkurinn á þingi með 28,5 prósent atkvæða á landsvísu. Vinstri græn koma þar á eftir með 17 prósent atkvæða á landinu öllu og þá koma Píratar með 14,5 prósent. Framsókn og Samfylkingin tapa miklu á landsvísu og hljóta nú sína verstu kosningu í sögunni.