Innlent

Benedikt: Stjórnir myndaðar utan um málefni, ekki þingmannafjölda

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar kom á fund til forseta Guðna Th. Jóhannessonar rétt fyrir klukkan 13 í dag en hann er sá fimmti í röðinni til að mæta á Bessastaði til að ræða komandi stjórnarmyndunarviðræður.

Benedikt gaf sér tíma til að ræða við fjölmiðlamenn eftir að hann kom af fundi forseta. Sagði Benedikt að þeir hafi farið yfir málin og hvernig þau stæðu. Guðni hafi komið gagnlegar ábendingar enda sé hann með yfirsýn yfir allt sviðið ólíkt leiðtogum flokkanna. Hann segir að útspil Pírata um að verja minnihlutastjórn falli sé um margt áhugaverð.

„Þetta er áhugavert útspil sem þýðir að það eru fleiri möguleikar í stöðunni en voru áður,“ sagði Benedikt við viðstadda fjölmiðlamenn. Hann segist hafa lagt það til við forseta að Viðreisn myndi leiða stjórnarsamstarf án þess þó að hafa beðið formlega um það. Benedikt var einnig spurður um mögulegt stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Á forsíðu Fréttablaðsins er greint frá því að Óttarr Proppé og Bjarni Benediktsson hafi rætt saman í síma í gær um mögulega ríkisstjórn flokkanna þeirra og Viðreisnar. 

Benedikt vildi lítið tjá sig um möguleikana á slíku samstarfi.

„Ég vil ekkert segja um það á þessu stigi málsins,“ sagði Benedikt og minntist á að það væri eins og það hafi uppgötvast í morgun að slík stjórn myndi njóta stuðnings 32 þingmanna eða meirihluta á þingi.

„Það er ekki þannig sem stjórnir myndar. Þær eru myndaðar utan um málefni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×