Handbolti

Augnablikið sem aldrei gleymist

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aleander í leik með landsliðinu.
Aleander í leik með landsliðinu. vísir/getty
Alexander Petersson staðfesti við Morgunblaðið í gær að hann væri hættur að spila með landsliðinu. Stundum er talað um að íþróttamenn þurfi að eiga eitt augnablik sem þeirra er öðru fremur minnst fyrir. Johan Cruyff átti Cruyff-­snúninginn, Diego Maradona hönd guðs, Jón Páll „Þetta er ekkert mál fyrir Jón Pál“ og svo mætti lengi telja. Alexander Petersson átti líka sitt augnablik

Það kom í leik Íslands og Póllands um bronsið á EM 2010 í Austurríki. Þegar ein og hálf mínúta var eftir af leik var dæmd leiktöf á íslenska liðið í stöðunni 28-26, boltanum var kastað fram á Tomasz Tluczynski sem var kominn einn gegn Hreiðari Levý Guðmundssyni. Það virtist aðeins einn möguleiki í stöðunni: pólskt mark.

En þá birtist Alexander eins og skrattinn úr sauðarleggnum, hljóp í einum hvínandi hvelli til baka, kastaði sér á eftir boltanum og sló hann aftur fyrir. Fæstir vissu hvaðan á þá stóð veðrið enda slík tilþrif afar sjaldséð. Fyrir Alexander virtist þetta álíka hversdagslegt og að borða hafragraut. Hann stóð upp, gaf nokkrar fimmur og kom sér á sinn stað í vörninni eins og ekkert hefði í skorist. Mikilvægi þessa magnaða og óvenjulega varnarleiks verður seint ofmetið.

Á þessum tímapunkti voru Íslendingar í vandræðum og mátturinn með Pólverjum í liði. Ef Alexander hefði verið sekúndu seinni hefði það þýtt rautt spjald, vítakast og líklega pólskan sigur. En Pólverjar fengu bara aukakast og vörnin breytti taktinum í leiknum. Íslendingar fengu ekki á sig mark það sem eftir var af leiknum og Guðjón Valur Sigurðsson gulltryggði Íslandi sigurinn og bronsið þegar hann skoraði 29. mark liðsins.

Það er fyrst og fremst fyrir þetta augnablik sem Alexanders verður minnst; þarna rótfesti hann sig í huga íslensku þjóðarinnar. Varnarleikurinn var líka lýsandi fyrir hann; fórnfýsin, vinnusemin einkenndi, og einkennir enn, hans leik. Eftir átta krefjandi leiki á 13 dögum hafði Alexander enn orku og kraft til að hlaupa til baka og bjarga málunum. Og svo hjálpaði fræg lýsing Adolfs Inga Erlingssonar auðvitað til: „Hvaðan kom hann? Hvert er hann að fara? Hvað er hann?“ Þau orð gleymast seint.

Þetta augnablik varpar að vissu leyti skugga á allt hitt á farsælum ferli Alexanders. Það gleymist kannski að hann spilaði kjálkabrotinn á EM 2006, var besti leikmaður Íslands á HM 2011 og valinn í úrvalslið mótsins, framlengdi feril Ólafs Stefánssonar um nokkur ár, var einn besti alhliða leikmaður sem við höfum átt og síðast en ekki síst einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins á gullaldarskeiði þess.

„Hann er okkar mikilvægasti leikmaður að mínu mati því að landsliðið fer allt í einu gang þegar hann byrjar að mæta. Hann er líklega töframaðurinn í allri velgengni liðsins. Hann er lítillátur og karakterinn er allur fallegur og góður. Hann tekur þessu öllu með sinni ró og virðist vera stoltur af því að vera Íslendingur,“ sagði Ólafur Stefánsson um Alexander eftir að hann var kjörinn Íþróttamaður ársins 2010.

Stundin þegar Alexander tók við verðlaunagripnum fyrir Íþróttamann ársins var stór. Hann var fyrsti, og enn þá eini, íþróttamaðurinn af erlendu bergi brotinn sem hefur verið valinn íþróttamaður ársins á Íslandi. Rúmum áratug áður kom hann til landsins, 18 ára gamall, frá Lettlandi, hóf að spila með Gróttu/KR og vann í Seglagerðinni Ægi meðfram því. Þaðan lá leiðin til Þýskalands þar sem hann hefur spilað við góðan orðstír frá 2003. Og landsliðið naut krafta hans í rúman áratug en á þeim tíma vann Ísland til silfurverðlauna á Ólympíuleikum, bronsverðlauna á EM, endaði í 6. sæti á HM 2011, 8. sæti á HM 2007 og 7. sæti á EM 2006.

Ísland hefur gefið Alexander mikið og hann gaf landsliðinu sín bestu ár sem handboltamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×