Innlent

Óttari líst mjög vel á fyrstu tölur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Óttar Proppé, formaður BF
Óttar Proppé, formaður BF
„Mér líst bara mjög vel á þetta. Miðað við stöðuna hjá okkur fyrir örfáum mánuðum er þetta mikill sigur. Við erum að bæta mikið við okkur frá skoðanakönnunum. Það er nokkuð öruggt að við erum ennþá inni á þingi. Þannig þetta eru frábærar tölur fyrir okkur,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við RÚV. 

Hann segir ýmsa hafa verið búna að missa trúna á flokkinn „en við vorum alveg með það á tæru að kjarninn væri þarna og að málefnin væru þarna þannig við höfum haldið okkar striki og það er að skila sér.“

Fylgisaukningu síðustu vikna útskýrir hann með því að flokkurinn hafi tekið ábyrgð á sinni stöðu. „Ég held að aðaltrikkið sé það að þessi samheldi hópur hélt saman af því hann trúði á Bjarta framtíð, á þessi grunngildi okkar,“ segir Óttarr.

Miðað við fyrstu tölur er flokkurinn með fjóra þingmenn inni en var með sex á liðnu kjörtímabili. „Auðvitað er alltaf betra að vera með fleiri þingmenn en ekki. En fyrir flokk sem fæstir trúðu að myndi vera með nokkurn mann inni fyrir mjög stuttu síðan er þetta heilmikill sigur.“

Aðspurður um hvort flokkurinn sé á leið í ríkisstjórn segir Óttarr: „Það er aldrei að vita. Við erum tilbúin til þess að taka ábyrgð en við ætlum ekki að stökkva til bara til þess að fá einhverja stóla heldur gengur það út á að gera gagn, að málefnin séu rétt og það sé einhver þörf á okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×