Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar í Olís-deild karla í handbolta, var í dag dæmdur í eins leiks bann á fundi Aganefndar HSÍ.
Einar fær bannið fyrir rauða spjaldið í leik Stjörnunnar og Aftureldingar í TM Höllinni í Garðabæ á laugardaginn vegna óíþróttamannslegrar framkomu gagnvart dómurum eftir leik.
„Niðurstaða aganefndar er að starfsmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Sverrir Pálmason tók ekki þátt í að úrskurða í málinu vegna tengsla við Einar og sagði hann sig því frá málinu," segir í úrskurði aganefndar í dag.
Einar Jónsson fór mikinn í gagnrýni sinni á dómara leiksins sem voru þeir Arnar Sigurjónsson og Svavar Ólafur Pétursson. Stjarnan tapaði leiknum 22-27 en Afturelding er í efsta sæti Olís-deildarinnar eftir sex umferðir.
Einar vildi fá afsökunarbeiðni frá dómurunum í viðtali við Vísi og sagði meðal annars: „Ég get ekki fengið annað á tilfinninguna en að það sé verið að dæma gegn okkur.“ Einar klippti meðal annars til tíu atriði úr leiknum þar sem hann segir halla verulega á sína menn.
Aganefnd HSÍ ákvað að taka þann hluta málsins ekki fyrir á þessum fundi sínum heldur fresta því um viku.
„Stjórn HSÍ hefur vísað til aganefndar ummælum er Einar Jónsson hafði í fjölmiðlum eftir leik Stjörnunnar og UMFA. Í samræmi við 19.gr. Reglugerðar um agamál hefur málsaðilum verið sent erindið og gefinn kostur á að bregðast við fyrir næsta fund aganefndar. Fyrirtöku málsins frestað til næsta fundar aganefndar þriðjudaginn 18. nóvember," segir í Úrskurður aganefndar í dag.
Einar Jónsson verður í banni þegar Stjarnan heimsækir Selfoss á fimmtudaginn en það kemur síðan ekki í ljós fyrr en eftir viku hvort að hann þarf líka að fara í lengra bann fyrir ummæli sín um dómara leiksins.
Einar í eins leiks bann en hann er ekki sloppinn

Tengdar fréttir

Formaður dómaranefndar: Hegðun Einars alveg út úr kú
Framkvæmdastjóri HSÍ, Einar Þorvarðarson, hefur vísað ummælum Einars Jónssonar, þjálfara Stjörnunnar, á Vísi í gær til aganefndar. Formaður dómaranefndar HSÍ vísar ásökunum þjálfarans til föðurhúsanna.