Innlent

Málþófi haldið í lágmarki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Alþingismenn taka sér núna frí frá þingstörfum til þess að skipuleggja kosningabaráttuna.
Alþingismenn taka sér núna frí frá þingstörfum til þess að skipuleggja kosningabaráttuna. vísir/eyþór
Áætlað er að þingstörf klárist í dag og alþingismenn fái þá tíma til þess að undirbúa sig fyrir kosningabaráttuna sem háð verður næstu tvær vikurnar. Samkvæmt upplýsingum frá Einar K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, er gert ráð fyrir að fyrir hádegi verði greidd atkvæði um þau mál sem ekki tókst að ljúka í gærkvöldi.

„Það er löngu kominn tími á að þingið ljúki störfum þannig að það er gott að við komum á þann stað að þingi sé að ljúka. Og það gerðist eftir að stjórnarflokkarnir lögðu fyrir okkur sína forgangsröðun,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Þingið er það lengsta sem hefur verið haldið frá árinu 1992 en þingfundardagar starfsárið 2015 til 2016 voru 144 talsins. Starfsárið 1992 voru þingfundardagar hins vegar 131.

Aftur á móti eru þingfundadagar styttri núna en oft áður. Meðallengd þingfundardaga í ár var 5,48 klukkustundir. Katrín segir að stjórnarandstaðan hafi lagt sig fram um það að vera málefnaleg og halda málþófi í lágmarki. „Hér hefur ekki verið mikið um málþóf og mun minna en við höfum séð á undanförnum árum. Og það gerum við af því að við teljum mikilvægt fyrir Alþingi að nálgast málin með þeim hætti.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×