Handbolti

Karl fékk þriggja mánaða bann og þarf að greiða 50.000 króna sekt vegna ummæla sinna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári Garðarsson þarf að finna sér nýjan aðstoðarmann.
Kári Garðarsson þarf að finna sér nýjan aðstoðarmann. vísir/ernir
Aganefnd HSÍ hefur úrskurðað Karl Erlingsson, fráfarandi aðstoðarþjálfara Gróttu, í þriggja mánaða bann og til greiðslu 50.000 króna sektar vegna ummæla hans eftir leik Gróttu og Hauka um helgina.

Grótta tapaði umræddum leik 29-25 og eftir hann fór Karl mikinn á Facebook. Hann gagnrýndi dómara leiksins, þá Matthías Leifsson og Örn Arnarson, harkalega sem og eftirlitsmanninn Kristján Halldórsson.

„Gríðarleg framför hjá HSÍ eða hitt þó heldur, dómararuglið heldur áfram. Þvílíkt rugl. Eigum við ekkert betra skilið? Látum það vera að þessir fábjánar hafa aldrei spilað handbolta sjálfir. En óþarfi að setja hálf vangefið lið í búning og láta þá dæma?“ skrifaði Karl.

„Skrípaleikur í boði Kristjáns Halldórssonar. Hvað á þetta fífl að fá að ganga langt í að eyðileggja íslenskan handbolta?“ bætti hann við.

Karl og Grótta báðust afsökunar á ummælum hans og í gær sendi félagið svo frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að Karl væri hættur störfum.

Ummælum Karls var vísað til aganefndar sem úrskurðaði hann í þriggja mánaða bann í dag.

Úrskurðurinn er svohljóðandi:



Stjórn HSÍ hefur vísað til aganefndar skrifum sem Karl Erlingsson starfsmaður B í leik Gróttu og Hauka í M.fl.kv. 01.10.2016 setti inn á Facebook síðu sína að leik loknum. Vísan málsins til aganefndar er í samræmi við VI kafla reglugerðar HSÍ um agamál. Í skrifum sínum á Facebook síðu sinni er Karl með mjög svo niðrandi orð um dómara leiksins, eftirlitsmann og starfsmann HSÍ. Fyrir aganefnd liggur greinagerð frá hkd. Gróttu þar sem fram kemur að Grótta hafi ákveðið að slíta samstarfi sínu við Karl í kjölfar þessa máls. Jafnframt gaf Grótta út yfirlýsingu þar sem þessi ummæli eru hörmuð og viðeigandi aðilar beðnir afsökunar. Atvik málsins virðast benda til þess að ummælin hafi verið skrifuð utan leikstaðar og áttu forsvarsmenn Gróttu erfitt með að koma í veg fyrir þau.

Niðurstaða aganefndar er að Karl Erlingsson starfsmaður B hjá Gróttu er úrskurðaður 3ja mánaða bann frá þátttöku í leikjum á vegum HSÍ og til greiðslu sektar að upphæð kr. 50.000. Gróttu er jafnframt veitt áminning vegna framkomu starfsmanns síns.


Tengdar fréttir

Karl hættur hjá kvennaliði Gróttu

Karl Erlingsson verður ekki áfram aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara Gróttu í kvennahandboltanum en þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Handknattleiksdeild Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×