1. sæti Bjarni Benediktsson með 2479 atkvæði
2. sæti Jón Gunnarsson með 1110 atkvæði í 1.-2. sæti
3. sæti Óli Björn Kárason 1230 atkvæði í 1.-3. sæti
4. sæti Vilhjálmur Bjarnason 968 atkvæði í 1.-4. sæti
5. sæti Bryndís Haraldsdóttir 1096 atkvæði í 1.-6. sæti
6. sæti Karen Elísabet Halldórsdóttir 1266 atkvæði í 1.-5. sæti
Alls kusu 3154 einstaklingar í prófkjörinu. Framan stefndi í að Karen Elísabet yrði í fimmta sæti listans en Bryndís Haraldsdóttir skaust upp fyrir hana þegar lokatölur voru birtar.
Sú staðreynd að karlar skipi fjögur efstu sætin á listanum mun samkvæmt heimildum Vísis leiða til þess að kjörnefnd grípi inn í og breyti röðun á listanum.

Bjarni Benediktsson sagðist þakklátur fyrir stuðninginn en lýsti yfir vonbrigðum með það að kona væri ekki ofar á listanum. Hann sagðist hafa viljað sjá konu fylla í skarðið sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir skildi eftir sig í kjördæminu en hún gefur ekki kost á sér til þingsetu.
Fram hefur komið að Bjarni hvatti Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur til að gefa kost á sér í annað sætið. Þorgerður Katrín sagði sig hins vegar úr flokknum og gekk í raðir Viðreisnar þar sem hún verður í framboði í Kraganum.
Þingmaðurinn Elín Hirst sem nær ekki sæti á listanum miðað við þessar tölur lýsti yfir miklum vonbrigðum en sagðist taka þeim með karlmennsku.
„Ég hef reynt að leggja mig alla fram í mínu starfi en það er greinilega ekki það sem kjósendur vilja, mínar áherslur.“
Fréttin var síðast uppfærð klukkan 22:15.
Bryndís Haraldsdóttir skýst upp í 5. sætið.
— Sjálfstæðisflokkur (@sjalfstaedisfl) September 10, 2016