Eiður fór mikinn í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn og lét sínar stelpur heyra það.
„Það vantaði allt, við hefðum alveg eins getað rukkað leikmenn inn í fyrri hálfleikinn. Ég vona að það sé hægt að gera það eftir á,“ sagði Eiður m.a. í viðtalinu og bætti því við að frammistaðan hefði verið til skammar fyrir liðið og félagið.

„Hann sagði sjálfur að hann hefði ekki komið strax í viðtalið því hann vildi róa sig. Ég held hann hefði átt að koma ennþá seinna eða sleppa viðtalinu og senda einhvern annan,“ sagði Vanda sem var gestur Helenu Ólafsdóttur í Pepsi-mörkunum ásamt Rögnu Lóu Stefánsdóttur.
„Hann var eiginlega ekki í því skapi sem þjálfari á að vera þegar hann fer í viðtal í fjölmiðlum.“
Eiður er aðeins 24 ára gamall og að þjálfa meistaraflokk í fyrsta sinn. Vanda og Ragna Lóa sögðu að reynsluleysið hefði e.t.v. komið í ljós þarna.
„Hann er mjög ungur, nýhættur með snuð,“ sagði Ragna Lóa og hló.
„Reynsluleysið skein í gegn í þessu viðtali. Ég myndi taka á þessu og biðjast afsökunar,“ bætti Vanda við.
Fylki hefur ekki gengið vel í sumar og aðeins unnið þrjá leiki. Árbæingar eru þó fjórum stigum frá fallsæti þegar fjórum umferðum er ólokið í Pepsi-deild kvenna.
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.