Flakkaðu um nýja heimsálfu. Skoðaðu fornar rústir og slátraðu djöflum, ófreskjum og saklausum dýrum í tonnavís. Komdu karakternum þínum upp um nokkur level og nældu þér í alls konar brynjur og vopn. Svona mætti lýsa hverjum einasta aukapakka fyrir sögufræga fjölspilunarleikinn World of Warcraft og það gildir sömuleiðis um Legion.
Eftir fjórtán mánuði af því að drepa orka og djöfla í Hellfire Citadel, kastala stútfullum af orkum og djöflum, var flestum spilurum World of Warcraft farið að leiðast. Til samanburðar myndu fæstir vilja horfa á sömu kvikmynd viku eftir viku. Sama hvort sú mynd væri Star Wars II eða Star Wars IV. Ekkert nýtt efni hafði komið út í rúmt ár og því var eftirvæntingin gríðarleg þegar Legion kom út um mánaðarmótin.
Legion sendir okkur til heimsálfunnar Broken Isles og leyfir okkur að flakka um svæði á borð við ævaforna skóginn Val‘sharah og hið ógnarháa Highmountain. Markmiðið er að koma í veg fyrir innrás djöflanna sem skipa The Burning Legion en eftir þeim er aukapakkinn nefndur.
Til að skilja um hvað ræðir er vert að taka fram að spilarar búa sér til karaktera sem þeir síðan spila. Spilarinn getur valið um tólf mismunandi stéttir (e. Classes) fyrir karakterinn sinn og hefur hver stétt karaktera mismunandi eiginleika, árásir og galdra. Þrjár nýjungar eru í aukapakkanum sem tengjast þessum svokölluðu stéttum.
Í fyrsta lagi ber að nefna glænýja stétt, Demon Hunter, sem byggð er á samnefndum karakterum úr herkænskuleiknum Warcraft 3. Heillaður af sögu stéttarinnar, sem gengur út á að nota krafta djöflanna gegn þeim, ásamt því að heillast af öllu því sem nýtt er, valdi blaðamaður auðvitað að spila Demon Hunter á ferðalagi sínu um Broken Isles.

Blaðamanni fannst einstaklega skemmtilegt að geta stýrt slíku stórveldi og hugsaði til þess þegar hann var á vettvangi í Broken Isles að prófa aðra nýjung, World Quests. Líkt og hin hefðbundnu quests, eða verkefni, sem maður þarf að vinna á meðan maður er að komast í hæsta level leiksins, nú 110, þarf maður að gera hitt og þetta. Drepa tíu svín, ná í tuttugu köngla, klifra uppá fjöll og þess háttar. Nú er hins vegar búið að sníða það kerfi að þeim leikmönnum sem eru í hæsta levelinu. Ef spilari vill ekki tala við annað fólk á meðan hann drepur endakalla getur hann einfaldlega farið einn út í heim og fengið fyrir það verðlaun sem hæfa hans tign. Leikurinn hefur því aldrei verið auðveldari fyrir þá sem eiga enga vini og nú.
Allar þessar nýjungar gera leikinn mun betri. Meira efni er nú til staðar fyrir spilara svo þeim ætti síður að leiðast á því að drepa sömu endakallana í fjórtán mánuði. Nýju dýflissurnar og áhlaupin virka einkar vel við fyrstu spilun en tíminn mun leiða í ljós hversu vel þau eldast. Demon Hunters eru góð viðbót í flóru stétta og World Quests bjóða manni upp á að gera eitthvað þegar enginn vina manns vill spila með manni eða einfaldlega ef maður hefur ekki nægan tíma í áhlaup.

Þá hefur Blizzard nú þegar tilkynnt um næsta plástur fyrir leikinn, óvenju snemma. Hann mun innihalda einkar stóra dýflissu og nýtt áhlaup sömuleiðis. Auk apps til að halda utan um undirmenn þína svo þú getir sent þá í ýmis verkefni. Allt stefnir í að nóg verði af efni fyrir spilara í Legion og skulum við vona að sú verði raunin þar sem enginn hefur áhuga á að spila í gegn um sama efnið fjórtán mánuði í röð.
Ekki hefur enn verið opnað fyrir ný áhlaup, ef til vill svo spilarar geti tekið sér tíma í að komast upp í level 110. Það sem blaðamaður hefur hins vegar séð af þeim úr myndböndum þeirra sem spiluðu betuna fyrir aukapakkann lofar hins vegar góðu.
Eftir að hafa náð í goðsagnakennt vopn, spilað upp í level 110, sent undirmenn í hættulega leiðangra, gert allnokkur World Quests og drepið vonda endakalla í dýflissum er blaðamaður einkar ánægður með Legion enn sem komið er.

Ótímabært er að tala um hvort aukapakkinn sé sá besti í sögu World of Warcraft en ef fram heldur sem horfir mun þeirri staðhæfingu vera fleygt fram þegar líða fer undir lok aukapakkans.
Þar sem engir plástrar eru út komnir og eftir á að opna fyrir efni er ekki hægt að gefa Legion fullt hús, en ef það efni verður á pari við það sem nú þegar er út komið mun vera erfitt að neita aukapakkanum um fimmtu stjörnuna.