
Ár hvert er almenningi boðið að heita á hlaupara sem leggja erfiðið á sig í von um að safna peningum fyrir málefni eða samtök sem skipta þau máli.
Fjöldamargir skráðu sig á vefsíðuna hlaupastyrkur í ár en fimm þeirra náðu að safna yfir milljón krónum fyrir sitt valda félag.
Þetta eru hinir raunverulegu sigurvegarar Reykjavíkurmaraþonsins í gær.
Skorri Rafn Rafnsson
Áheitakóngurinn í ár heitir Skorri Rafn Rafnsson. Hann hljóp 10 kílómetra og safnaði 3.615.500 kr. fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna.
Dóttir hans greindist 11 mánaða gömul með heilaæxli og hefur verið í lyfjameðferð síðastliðna 7 mánuði.
Þetta var hans leið til þess að þakka fyrir sig.

Þrátt fyrir að vera ungur að árum hljóp Hilmir Vilberg Arnarsson 10 kílómetra og safnaði 2.835.000 kr. fyrir styrktarsjóð Þórdísar systur sinnar sem hefur átt við veikindi að stríða.

Vísir ræddi við hinn 13 ára gamla Hilmi daginn fyrir hlaup en hann var að taka við keflinu frá eldri systur sinni. Hún hefur hlaupið fyrir styrktarsjóðinn síðastliðin þrjú ár en gat það ekki í þetta skiptið.
Lárus Guðmundur Jónsson
Lárus Guðmundur Jónsson hljóp hálfmaraþonið fyrir Bergmál.Bergmál er líknar- og vinafélag sem hlúir að blindum, krabbameinssjúkum og langveikum.
Hann safnaði 1.848.075 kr. með framtaki sínu í gær.
Þörf hefur verið á stækkun húsnæði samtakanna.
Því hefur upphæðin sem safnaðist í gær verið dýrmæt.

Baldvin Rúnarsson
Nokkru fyrir hlaupið fjallaði Vísir um Akureyringinn Baldvin Rúnarsson.Baldvin var þá efstur þeirra hlaupara sem búið var að heita á.
Baldvin hljóp hálfmaraþonið á undir tveimur tímum í gær.
Hann styrkti í leiðinni Krabbameinsfélag Akureyrar um 1.538.000 kr.
Þar var hans leið að þakka fyrir sig.
Hann hefur verið að berjast við heilaæxli sem hann greindist með fyrir þremur árum síðan.
Baldvin sagði átakanlega sögu sína í viðtali við Vísi fyrir hlaup sem má lesa hér.
Valdimar Guðmundsson
Sá fimmti til þess að ná yfir milljónamarkið í gær var Valdimar Guðmundsson söngvari sem fór 10 kílómetrana í beinni útsendingu hér á Vísi. Sigur Valdimars var bæði persónulegur og öðrum góð hvatning. Fyrir nokkrum mánuðum síðan hefði hann aldrei getað framkvæmt það sem hann gerði í gær vegna glímu sinnar við matarfíkn. Margir hafa þegar komið fram og sagt að Valdimar hafi verið sér hvatning í baráttunni við aukakílóin.Alþjóð fylgdist með Valdimar í undirbúningi og á meðan á göngu hans stóð í gær. Í leiðinni gerði hann sér lítið fyrir og safnaði 1.048.500 kr. fyrir Krabbameinsfélag Íslands.
Myndbandið af þrautargöngu Valdimars í Reykjavíkurmaraþoninu má sjá hér fyrir neðan.
Samanlagt söfnuðu hlaupara yfir 95 milljónir í gegnum hlaupastyrk síðuna í ár. Ennþá er opið fyrir áheit á síðunni svo við má búast að þessi tala muni hækka eitthvað.