Breiðablik vann öruggan sigur á KR og ÍBV og Stjarnan unnu sterka útisigra.
Alex Nicole Alugas tryggði FH gríðarlega mikilvægan sigur á ÍA þegar liðin mættust í Kaplakrika.
Alugas er nýkomin til FH frá Sindra á Hornafirði og hún gerði sér lítið fyrir og skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Fimleikafélagið.
Bryndís Hrönn Kristinsdóttir kom FH í 1-0 strax á 6. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.
Cahtrine Dyngvold jafnaði metin fyrir ÍA á 59. mínútu en aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Alugas, sem kom inn á í hálfleik, sigurmarkið mikilvæga.
FH, sem hafði tapað sex leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld, komst þar með upp í 7. sæti deildarinnar. FH-ingar eru með 10 stig, fjórum stigum frá fallsæti.
Skagakonur, sem tókst ekki að fylgja eftir sigrinum á KR í síðustu umferð, eru enn á botni deildarinnar með fjögur stig.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði tvö mörk en hún er búin að skora átta mörk í síðustu fimm leikjum Vals.
Vesna Elísa Smiljkovic braut ísinn á 17. mínútu og þegar sjö mínútur voru til hálfleiks kom Margrét Lára Val í 2-0.
Þannig var staðan fram í uppbótartíma þegar Margrét Lára skoraði sitt annað mark og þriðja mark Vals úr vítaspyrnu. Landsliðsfyrirliðinn er alls komin með 10 mörk í Pepsi-deildinni, fjórum mörkum minna en Stjörnukonan Harpa Þorsteinsdóttir.
Valskonur eru í 3. sæti deildarinnar með 21 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Stjörnunnar.
Fylkir er aftur á móti í 6. sæti með 10 stig, fjórum stigum frá fallsæti.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar af úrslit.net.