Handbolti

Strákarnir byrja á sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska U-20 ára liðið sem tekur þátt á EM.
Íslenska U-20 ára liðið sem tekur þátt á EM. vísir/stefán
Íslenska handboltalandsliðið skipað leikmönnum 20 ára og yngri vann eins marks sigur, 32-31, á Rússum í fyrsta leik sínum í B-riðli á EM í Danmörku í kvöld.

Leikurinn var jafn og spennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en undir lokin.

Þegar þrjár mínútur voru eftir var Ísland í góðri stöðu, þremur mörkum yfir, 31-28. Rússar hleyptu spennu í leikinn með því að skora tvö mörk í röð en Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 32. mark Íslendinga úr hægra horninu og tryggði sigurinn.

Íslenska liðið byrjaði illa en vann sig vel inn í leikinn og leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 15-13.

Ísland var með undirtökin í seinni hálfleik en náði aldrei að hrista rússneska liðið af sér. Íslensku strákunum tókst þó að landa sigrinum á endanum, ekki síst vegna góðrar innkomu Einars Baldvins Baldvinssonar í markið.

Ómar Ingi Magnússon skoraði átta mörk og var valinn besti maður íslenska liðsins af mótshöldurum. Óðinn Þór skoraði sjö mörk og Elvar Örn Jónsson átti einnig skínandi leik, bæði í horninu og fyrir utan, og skoraði sex mörk.

Ísland er með tvö stig í B-riðli líkt og Spánn sem vann nauman sigur á Slóveníu, 21-20, fyrr í dag.

Markaskorarar Íslands:

Ómar Ingi Magnússon 8, Óðinn Þór Ríkharðsson 7, Elvar Örn Jónsson 6, Aron Dagur Pálsson 3, Sigtryggur Daði Rúnarsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Birkir Benediktsson 1, Hákon Daði Styrmisson 1, Ýmir Örn Gíslason 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×