Innlent

Fjölmiðlanefnd sektar RÚV um 250 þúsund

Birgir Olgeirsson skrifar
RÚV rauf útsendingu á Melodifestivalen til að sýna auglýsingar, en það mátti ríkisfjölmiðillinn ekki að mati Fjölmiðlanefndar.
RÚV rauf útsendingu á Melodifestivalen til að sýna auglýsingar, en það mátti ríkisfjölmiðillinn ekki að mati Fjölmiðlanefndar. Vísir/GVA
Fjölmiðlanefnd hefur sektað Ríkisútvarpið um 250 þúsund krónur fyrir að sýna auglýsingar í þættinum Melodifestivalen sem sýndur á RÚV í mars síðastliðnum. Á vef Fjölmiðlanefndar kemur fram að á vef RÚV hafi dagskrárliðurinn verið kynntur með þeim hætti að um væri að ræða beina útsendingu frá sænsku söngvakeppninni Melodifestivalen.

Var útsendingin rofin með auglýsingum en samkvæmt 3. málsgrein 7. greinar laga um Ríkisútvarpið er því almennt óheimilt að slíta í sundur dagskrárliði með viðskiptaboðum í sjónvarpi.

Þann 14. mars síðastliðinn barst fjölmiðlanefnd erindi frá Magnúsi Ragnarssyni fyrir hönd Símans hf. þar sem gerðar voru athugasemdir við framangreindan dagskrárlið. Að mati kvartanda var með útsendingunni brotið gegn lögum um RÚV.

Í erindinu kom fram að sýning á Melodifestivalen á RÚV hafi hafist hálftíma síðar en í Svíþjóð og taldi kvartandinn að útsendingunni hafi verið seinkað til að RÚV gæti rofið þáttinn með auglýsingum. Jafnframt var bent á að sænska ríkisútvarpið, sem sjónvarpaði viðburðinum, væri rekið án auglýsingatekna eins og kunnugt væri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×