Opnaður verður kjörstaður í Annecy í kvöld þar sem strákarnir okkar dvelja á meðan keppni á EM fer fram. Það er gert til þess að þeir landsliðsmenn sem eigi eftir að kjósa í forsetakosningunum sem fram fara á laugardag geti gert það en auk þeirra dvelja margir fjölmiðlamenn í Annecy auk einhverra vina og fjölskyldna strákanna okkar.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er hægt að kjósa víða í Frakklandi en mikilvægt er að hafa í huga að fólk þarf sjálft að sjá um að koma atkvæðinu sínu á kjörstað í réttu kjördæmi fyrir lokun kjörstaða á laugardaginn. Það þarf því að finna einhvern sem er á leiðinni heim til Íslands á morgun eða laugardag sem getur tekið atkvæðið fyrir mann og komið því á réttan stað.
Þannig hafa stuðningsmenn Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda tekið sig saman um að aðstoða stuðningsfólk landsliðsins við að koma utankjörstaðaratkvæðunum til Íslands og á réttan stað. Þeir hvetja Íslendinga í Frakklandi til að kjósa í sendiráðinu í París eða í Annecy og koma svo umslaginu til stuðningsmanns á heimleið. Stuðningsfólk Höllu mun svo koma þeim umslögunum sem berast á rétta kjörstaði.
Í samtali við Vísi segir Urður Gunnarsdóttir upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins að það hafi verið stöðugur straumur af fólki í sendiráðinu í París í dag sem kom til að kjósa en hér á heimasíðu utanríkisráðuneytisins má nálgast upplýsingar um alla kjörstaði í Frakklandi.
Kjörstaður fyrir forsetakosningarnar opnaður í Annecy

Tengdar fréttir

Sólarvörn í sólarsamba á æfingu strákanna í Annecy | Myndir
Sólin brosti við íslenska liðinu er það mætti á æfingu í Annecy í dag.

Kosningaþátttakan það sem er mest spennandi
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor segir forskot Guðna Th. draga úr spennu fyrir komandi forsetakosningnar.

Tæplega helmingur segist styðja Guðna
Þótt fylgi við Guðna Th. Jóhannesson haldi áfram að minnka hefur hann enn ríflegt forskot á aðra frambjóðendur. Halla Tómasdóttir bætir við sig 10 prósentum í nýrri könnun. Andri Snær og Davíð Oddsson eru nánast jafnir.