Kosningamaskínan hikstar óvænt
Samkvæmt heimildum Vísis ríkir verulegur titringur innan herbúða Davíðs – tæpt mun standa að tilskilinn fjöldi náist. Fréttablaðið hringdi í morgun í kosningamiðstöð hans til að grennslast fyrir um stöðu mála en þar fengust óljós svör um stöðu mála. Vísi hefur ekki tekist að ná sambandi við Erlu Gunnlaugsdóttur, fjölmiðlafulltrúi framboðsins.
Á Facebook-síðunni „Davíð sem forseta“ er allsherjarútkall, nú þurfi að láta hendur standa fram úr ermum. „Við hvetjum áhugasama til að hitta okkur í dag og skrifa undir, því tíminn er naumur,“ má lesa þar en skipulagðar undirskrifasafnanir eru fyrir utan Hagkaupsbúðirnar.

Þrýst á blaðamenn Morgunblaðsins
Í gær fékk starfsfólk Morgunblaðsins póst þar sem áréttað var að í anddyri lægi frammi undirskriftalisti fyrir Davíð Oddsson í móttökunni. Og Laufey Rún Ketilsdóttir, formaður SUS og blaðamaður Morgunblaðsins, gekk á milli fólks í Hádegismóum til að safna undirskriftum.
Hún vildi sem allra minnst tjá sig um málið en sagði ekkert launungarmál að hún styðji Davíð Oddsson sem forseta.
Stuðningur Laufeyjar við Davíð þarf ekki að koma á óvart en hún er systir Friðbjörns Orra Ketilssonar sem einmitt keypti lénið david2016.is, sem er kosningavefur Davíðs. Friðbjörn Orri er í stjórn Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins.
Davíð hefur tekið sér frí frá ritstjórnarstörfum hjá Morgunblaðinu. Hann sagði í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudaginn að hann ætti heilmikið sumarfrí inni, í mánuðum talið, þar sem hann hefði aðeins tekið sér viku samtals undanfarin ár. Hann hyggst snúa aftur til þeirra starfa að framboði loknu nái hann ekki kjöri.
Uppfært klukkan: 14:48: Vísir náði tali af Erlu Gunnlaugsdóttur nú rétt í þessu. Hún kvaðst ekki vera með nákvæma tölu yfir það hversu margir hefðu skrifað undir lista til stuðnings framboði Davíðs en sagðist mjög bjartsýn á að það tækist að safna þeim undirskriftum sem til þarf til að bjóða sig fram til forseta.