Eiður Smári Guðjohnsen lagði upp mark í sínum öðrum leik í röð er Molde vann 4-0 stórsigur á Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Eiður lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Sander Svendsen á fimmtándu mínútu með afar laglegri hælspyrnu. Hann var svo tekinn af velli á 74. mínútu í stöðunni 3-0.
Guðmundur Kristjánsson var í byrjunarliði Start sem tapaði á heimavelli fyrir Sarpsborg 08, 4-1. Kristinn Jónsson var ekki í leikmannahópi síðarnenfda liðsins.
Sjá einnig: Sjáðu fallega stoðsendingu Eiðs Smára
Þá var Aron Sigurðarson í byrjunarliði Tromsö sem tapaði fyrir Rosenborg, 2-1. Matthías Vilhjálmsson og Hólmar Örn Eyjólfsson voru báðir í byrjunarliði Rosenborg.
Lilleström, lið Rúnars Kristinssonar, gerði 1-1 jafntefli við Álasund. Árni Vilhjálmasson spilaði fyrstu 64 mínúturnar í liði Lilleström en þeir Daníel Grétarsson og Aron Elís Þrándarson voru báðir á bekknum hjá Álasundi. Aron Elís kom inn á í síðari hálfleik.
Rosenborg er á toppi deildarinnar með fimmtán stig af átján mögulegum en Molde og Odd koma næst með fjórtán stig hvort.

