Körfubolti

Helena með 45 stig á öðrum fætinum | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir átti stórbrotinn leik í gær þegar Haukar komust í 2-1 í úrslitaeinvíginu á móti Snæfelli og það er henni að þakka að Haukaliðinu vantar aðeins einn sigur til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í Domino´s deild kvenna í körfubolta.

Helena skoraði 45 stig á 44 mínútum og 50 sekúndum í leiknum eða meira en stig á mínútu. Hún var einnig með 11 fráköst og 6 stoðsendingar á félaga sína.

Helena skoraði 35 stigum meira en næststigahæsti leikmaður Haukaliðsins og alls 55 prósent stiga liðsins leiknum.

Helena var samt á öðrum fætinum því hún meiddist illa á kálfa í leik eitt og gat þá ekki spilað síðustu fimmtán mínúturnar. Hún var síðan ekkert með í leik tvö en harkaði af sér og kom svona sterk til baka í leik þrjú í gærkvöldi.

Helena skoraði 22 stig á síðustu átta mínútum venjulegs leiktíma og í framlengingunni en Haukarnir unnu þá upp tíu stiga forystu Snæfells og tryggðu sér síðan átta stiga sigur í framlengingu.

Helena skoraði alls fjórtán körfur í leiknum og þar á meðal var karfan magnaða þremur sekúndum fyrir leikslok sem kom leiknum í framlengingu.

Körfuboltakvöldið hefur tekið saman allar körfur Helenu í leiknum og þar má sjá að hún var ekki að fá neitt gefið frá Snæfellskonum í leiknum í gær. Myndbandið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×