Fótbolti

Áfrýjunarmál Platini tekið fyrir í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michel Platini vill komast aftur að í fótboltanum.
Michel Platini vill komast aftur að í fótboltanum. vísir/getty
Íþróttadómstóllinn í Sviss tekur í dag fyrir áfrýjunarmál Michel Platini en hann vill fá sex ára banni sínu frá fótbolta hnekkt.

Platini og Sepp Blatter, fyrrverandi forseti FIFA, voru báðir úrskurðaðir í átta ára bann vegna 234 milljóna króna ólögmætrar greiðslu frá Blatter til Platini sem upp komst.

Báðir fengu upphaflega átta ár bann sem var svo minnkað niður í sex ár vegna þjónustu þeirra við fótboltann í gegnum tíðina.

Báðir halda þeir fram sakleysi sínu og á Blatter einnig eftir að fara með sitt mál fyrir áfrýjunardómstólinn.

Ekki er búist við að dómstólinn kveði upp úrskurð í máli Michel Platini í dag en það gæti gerst snemma í næstu viku.

Platini er allt annað en sáttur við meðferðina sem hann hefur fengið og hefur opinberlega sagt að þetta bann sé bæði móðgandi og skammarlegt.

Honum finnst það einungis hafa verið sett á til að hindra hann í að verða forseti FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×