Innlent

Ekki þörf á Sigmundi segir Brynjar Níelsson

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Brynjar Níelsson á leið til fundarins í Valhöll í dag.
Brynjar Níelsson á leið til fundarins í Valhöll í dag. Vísir/Pjetur
Brynjar Níelsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, vill að flokkurinn haldi áfram ríkistjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn, hvort sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson haldi áfram sem forsætisráðherra eða ekki. Þetta sagði Brynjar áður en hann gekk inn á þingflokksfund sjálfstæðismanna sem hófst á þriðja tímanum í dag.

Brynjar, hvað fannst þér um þá niðurstöðu sem forsetinn komst að?

„Það fer eftir því hvort þú ert að tala við lögfræðinginn eða stjórnmálamanninn. Sem lögfræðingur er ég nú ekki hrifinn af þessari stöðu út af stjórnskipun landsins en ég held að það hafi engu að síður verið skynsamlegt eins og staðan var.“

Hver er staðan?

„Nú erum við að fara að ræða hana og komust vonandi að einhverri niðurstöðu. Sjálfur tel ég mikilvægt að ríkisstjórn þessara flokka haldi áfram.“

Hvernig getur það gerst?

„Nú verðum við að finna út úr því. Það er ekki alveg einfalt eins og staðan er núna.“

Eftir þessa atburðarás í morgun...

„Já, það bara flækir málið. “

Geta allir sem eru innanborðs í ríkisstjórninni núna eins og staðan er núna haldið áfram í henni?

„Ég skal ekki segja en ég held að það sé mikil vilji til þess að gera það ef það er hægt.“

Þannig að forsætisráðherra getur haldið áfram í ríkisstjórninni?

„Ég er ekki að segja að það þurfi að vera. En ég tel mikilvægt að þessir flokkar starfi áfram, hvort sem Sigmundur verður áfram eða ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×