Innlent

Fjórir af fimm vilja afsögn Sigmundar Davíðs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigmundur fundaði með forseta Íslands á Bessastöðum í dag. Þeim ber ekki saman hvað fór á mili þeirra.
Sigmundur fundaði með forseta Íslands á Bessastöðum í dag. Þeim ber ekki saman hvað fór á mili þeirra. Vísir/Anton Brink
Mikill meirihluti landsmanna, eða 81 prósent, telja að Sigmundar Davíð Gunnlaugsson segi af sér embætti forsætisráðherra. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem RÚV birtir í kvöld. Könnunin var gerð í gær og í dag.

Spurt var: Telur þú að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigi að segja af sér sem forsætisráðherra eða telur þú að hann eigi að sitja áfram sem forsætisráðherra?

19% töldu að Sigmundur Davíð ætti ekki að segja af sér embætti.

Sigmundur ákvað sem kunnugt er að stíga til hliðar fyrr í dag, úr stól ráðherra, en verður áfram þingmaður og formaður Framsóknarflokksins. Fram kom í tilkynningu til erlendra fjölmiðla í kvöld að Sigmundur hefði ekki sagt af sér, heldur stigið til hliðar tímabundið.

Þegar niðurstöður könnunarinnar eru greindar frekar má sjá að fleiri konur en karlar vildu að hann segði af sér og sömuleiðis fleiri úr höfuðborginni en úti á landi. Aðeins 14% stuðningsmanna Framsóknar töldu að hann ætti að segja af sér en rúmlega helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins eða 56%.

Svo til allir stuðningsmenn stjórnarandstöðuflokkanna vildu að Sigmundur segði af sér og rúmlega þriðjungur stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar.

699 svöruðu könnuninni og tóku 91% aðspurðra afstöðu til spurningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×