Sú umfjöllun hefur aðallega beinst að fráfarandi forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, vegna tengsla hans við aflandsfélagið Wintris sem heldur utan um fjölskylduarf eiginkonu hans Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur. Málið komst upp í kjölfar lekans á Panama-skjölunum.
Sjáðu ræðuna í spilaranum hér fyrir neðan:
Lilja sagði greiðan aðgang að erlendum mörkuðum afar mikilvægan fyrir íslenskt þjóðarbú sem byggir hagsæld sína á útflutningi varnings, hugvits og menningar.
„Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar mun ég beita mér fyrir öflugri hagsmunagæslu fyrir Ísland og áframhaldandi sókn á nýja markaði ekki síst í nýjum markaðsríkjum. Þannig munum við saman skapa aukin tækifæri fyrir kraftmikið íslenskt atvinnulíf,“ sagði Lilja.
Hún sagði orðspor þjóðar vera fjöregg og að mikilvægt væri að undirstrika að Ísland hefur mikilvæga rödd á alþjóða vísu.
„Við tölum fyrir lýðræðisumbótum,mannréttindum, jafnrétti og frelsi í viðskiptum. Það er mjög mikilvægt að við stöndum vörð um orðspor Íslands og þau gildi sem við stöndum fyrir sem þjóðfélag,“ sagði Lilja.
Hún sagði þann storm sem hefur geisað síðust daga vissulega beina sjónum að orðspor Íslands.
„Í ráðuneyti mínu er verið að greina áhrif þeirrar erlendu umfjöllunar sem hefur verið og sú vinna er ætíð í gangi. Það er brýnt að meta skaðsemi umræðunnar og bregðast við á viðeigandi hátt. Í raun má segja að með sama hætti að Ísland var fyrsta fórnarlamb hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu sem reið yfir á árunum 2008 og 2009, þá höfum við verið fyrst í skotlínunni núna. Mikilvægt er að koma öllum upplýsingum á framfæri af yfirvegun og festu. Mitt ráðuneyti mun leggja allt sitt af mörkum til þeirrar mála og við munum ekki slá slöku við í þeim efnum,“ sagði Lilja en horfa má á ræðu hennar í heild í spilaranum hér fyrir ofan.