Innlent

Segir það sjálfstætt og sérstakt vandamál að forsætisráðherra virðist vera kominn með Photoshop

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Guðmundur Steingrímsson kallar eftir því að fólk láti af hvötum sínum að vera besserwisserar varðandi nýjan Landspítala.
Guðmundur Steingrímsson kallar eftir því að fólk láti af hvötum sínum að vera besserwisserar varðandi nýjan Landspítala. Vísir/Valli
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, kallar eftir því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og aðrir hætti að vera besserwisserar um staðsetningu Landspítalans og að uppbyggingu hans við Hringbraut verði haldið áfram. Þetta sagði hann í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. 

„Það virðist vera orðið sjálfstætt vandamál og æði sérstakt vandamál að hæstvirtur forsætisráðherra virðist vera kominn með Photoshop í tölvuna sína og virðist verja dálítið miklum tíma í það að hanna upp á eigin spýtur allskonar byggingar og hús og reyna selja okkur hinum það að þetta séu skynsamlegar teikningar og skynsamleg skipulagning,“ sagði hann.

Nýi Landspítalinn við Hringbraut, séð til suðurs af svölum gamla spítalans, en Sigmundur Davíð vill sjá spítalann annars staðar.vísir
„Ég er líka með Photoshop í minni tölvu og get vel brokkað hér fram með allskonar teikningar þar sem að ég lýsi því yfir að skynsamlegt væri að byggingarnar væru á Bessastaðatúninu, eða í Elliðaárdal, eða í Hvassahrauni eða hvar sem er. Þetta er ekkert mál en ég kem hér upp til að vekja athygli á því að blessunarlega þá störfum við ekki svona í pólitík. Þá tökum við ekki veigamiklar ákvarðanir svona í pólitík.“

Sigmundur Davíð lýsti í vikunni hugmyndum sínum um uppbyggingu spítalans við Vífilsstaði frekar en Hringbraut. Guðmundur sagði að niðurstöðu endurtekinna úttekta síðustu fimmtán ár að Hringbraut væri besti staðurinn til að byggja upp spítalann. 

„Það er búið að gefa út að minnsta kosti fjórar mjög vandaðar greiningar á því hvar spítalinn er best byggður og allar þær skýrslur hafa komist að þeirri niðurstöðu – út frá svo fjölmörgum þáttum – að spítalinn sé best hafður og uppbyggður við Hringbraut,“ sagði hann.

„Nú verða stjórnmálamenn og aðrir að láta af hvötum sínum að vera besserwisserar í þessu ferli og einfaldlega viðurkenna það að greiningarnar hafa farið fram vegna þess að hagsmunamálið er stórt,“ sagði hann „Það ríkir neyðarástand á spítalanum í húsnæðismálum og það þarf að drífa í þessu.“

Guðmundur kallaði að lokum eftir því að uppbyggingin við Hringbraut héldi áfram og að Sigmundur Davíð fengið annað forrit í tölvuna sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×