Körfubolti

Elvar stiga- og stoðsendingahæstur í sigri Barry | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar hefur spilað sérlega vel með Barry í vetur.
Elvar hefur spilað sérlega vel með Barry í vetur. mynd/hilmar bragi
Elvar Már Friðriksson átti frábæran leik þegar Barry tryggði sér NCAA Division II South Region titilinn í bandaríska háskólakörfuboltanum með fjögurra stiga sigri, 83-87, á Alabama-Huntsville Chargers á útivelli.

Elvar var bæði stiga- og stoðsendingahæstur í liði Barry en Njarðvíkingurinn skoraði 21 stig og gaf fimm stoðsendingar. Elvar tók auk þess sjö fráköst og tapaði boltanum aldrei í leiknum.

Leikstjórnandinn ungi nýtti skotin sín vel í leiknum og þá sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna. Elvar tók alls 10 þriggja stiga skot í leiknum og hitti úr helmingi þeirra.

Leikurinn var jafn framan af en Chargers átti góðan endasprett í fyrri hálfleik og fór því með átta stiga forskot, 48-40, til búningsherbergja.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn eins og þeir enduðu þann fyrri og eftir tæplega þriggja mínútna leik var munurinn orðinn 12 stig, 56-44.

En þá vöknuðu Elvar og félagar til lífsins, komu með kröftugt áhlaup og náðu átta stiga forystu, 62-70, þegar Elvar negldi niður þristi.

Leikmenn Chargers gáfust þó ekki upp og náðu forystunni á nýjan leik. En undir lokin reyndust Barry-menn sterkari á svellinu. Elvar setti niður tvo þrista í röð og kom sínum mönnum fimm stigum yfir, 76-81, þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka og það bil náðu heimamenn ekki að brúa. Lokatölur 83-87, Barry í vil.

Elvar var valinn í úrvalslið mótsins en Barry komst með sigrinum í átta-liða úrslit þar sem liðið mætir Lincoln Memorial í Texas eftir viku.

Hér að neðan má sjá myndband með helstu atvikum leiksins og fögnuði Barry-manna í leikslok.

Sweet Victory #EliteEightBound

Highlights of Barry University BarryU Men's Basketball 87-83 win over Alabama Huntsville in the Sweet 16. On to the Elite Eight #GoBarryBucs

Posted by Barry University Athletics on Tuesday, March 15, 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×