Í stuttu máli snýst hann um að að leysa þrautir á óbyggðri eyju, til þess að uppgötva leyndardóma hennar. Þrautirnar ganga út á að draga línu frá A til B, en auðvitað er það þó flóknara en það. Það gilda ákveðnar reglur um hvar maður eigi að draga línurnar og hvernig og er það verkefni spilara að átta sig á þessum reglum.
Áðurnefndar reglur eru margvíslegar og byggja jafnvel á umhverfinu í kringum spilara.
Leikurinn er gerður af Jonathan Blow, sem gaf út leikinn Braid árið 2008. Sá leikur var einnig þrautaleikur en hann var í tvívídd.
Við það að spila The Witness féllu tilfinningar mínar í ákveðna rútínu. Ég gekk ánægður um eyjuna og dáðist að því hvað hún leit vel út. Þá rakst ég á þraut sem leit skemmtilega út, en ekki var allt með felldu. Þrautin reyndist ekki eins auðveld og mér sýndist í fyrstu. Eftir nokkrar tilraunir var þrautin orðin nokkuð þreytt og skömmu seinna var ég sannfærður um að þrautin væri biluð. Reiðinni fylgdi svo uppljómun þegar ég átta mig á reglum þrautarinnar og tókst að klára hana.
Svo tók næsta þraut við, en þær eru rúmlega 600 talsins.
Maður fær það á tilfinninguna að leysa eigi þrautirnar bara til þess að leysa þær svo það sé hægt að leysa næstu. Hægt er að finna upptökutæki á eyjunni þar sem hlusta má á, meðal annars, frægar setningar eftir vísindamenn, geimfara og fleiri.
Fyrir hefðbundna unnendur tölvuleikja er ég ekki viss um að það séu nægilega góð verðlaun. Það fylgir því hins vegar mikil ánægja að leysa erfiða þraut.