Innlent

Gefa sjúklingum meira val

Samúel Karl Ólason skrifar
Rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu verður boðinn út samkvæmt tillögum heilbrigðisráðherra sem kynntar voru í morgun. Ráðherra segir að með þessu sé verið að innleiða fleiri rekstrarform innan heilsugæslunnar og aðgengi sjúklinga að þjónustunni muni aukast.

Starfræktar eru sautján heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og þar af eru tvær reknar af einkaaðilum. Engin ný heilsugæslustöð hefur verið opnuð á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin tíu ár, þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað um tuttugu þúsund.

Tillögurnar sem kynntar voru í morgun gera ráð fyrir að fjármagn fylgi sjúklingum. Til dæmis ef þeir kjósa að færa sig á milli heilsugæslustöðva. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segir að markmiðið með þessum tillögum sé að styrkja heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu.

Gjörbreyta fjármögnunarlíkani

„Byrja að vinna okkur upp úr þeirri stöðu sem að hún er í. Í ljósi þess að hér hefur fjölgað á síðustu tíu árum um tuttugu þúsund manns, án þess að ný heilsugæslustöð hafi komið til, er augljóst að við þurfum að gera þetta. Við erum að taka fyrstu skrefin í þá veru með þeim hætti að láta í rauninni sjúklinga hafa meira val um hvar þeir sækja þjónustu. Það gerum við á grunni þess að við gjörbreytum fjármögnunarlíkani starfsemi heilsugæslustöðva,“ sagði Kristján í fréttum Bylgjunnar.

Hann segir að sjúklingar þurfi ekki að greiða hærra gjald fyrir þjónustu og þá verði einkareknum heilsugæslustöðvum bannað að greiða út arð til eigenda. Kristján vonast til þess að hægt verði að bjóða út rekstur nýju heilsugæslustöðvanna á þessu ári.

Aðspurður hvað þetta muni kosta ríkissjóð segir Kristján að það verði ekki meira en séu á fjárlögum á þessu ári.

„Við eru með beinar fjárveitingar inn í heilsugæsluna um tæpan 6,1 milljarð. Við gerum ráð fyrir því að það sem út úr þessu kemur eftir útboð komi til rekstrar ný heilsugæslustöð eða stöðvar í haust og fjármögnun þeirra er tryggð út árið.“

BSRB sendi frá sér tilkynningu í morgun, sem byggir á ályktun stjórnar bandalagsins frá því í desember. Þar er segist stjórnin andsnúin einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar.


Tengdar fréttir

Eigendum óheimilt að greiða sér arð

Nýtt fyrirkomulag heilsugæslunnar verður kynnt í dag. Breytt greiðslufyrirkomulag og þrjár nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×