Erlent

Segir ISIS ógna Líbýu

Samúel Karl Ólason skrifar
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/EPA
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Íslamska ríkið ógni Líbýa. Samtökin gætu náð tökum á olíulindum þar í landi. Hins vegar sé sótt fram gegn samtökunum bæði í Írak og Sýrlandi. Fulltrúar 23 þjóða sem berjast gegn ISIS funda nú í Róm um hvað megi betur fara.

ISIS hafa ráðist gegn olíuvinnslu í Líbýu og náð tökum í borginni SirteKerry segir að þeir megi ekki ná tökum á olíulindum sem gætu skapað þeim miklar tekjur.

Tvær ríkisstjórnir hafa undanfarna mánuði barist um völdin í landinu. Sameinuðu þjóðirnar stigu inn í og í síðasta mánuði komust fylkingarnar að samkomulagi um stofnun sameiginlegrar ríkisstjórnar. Erfiðlega hefur þó gengið að stofna ríkisstjórnina vegna innanbúðadeilna.

Samkvæmt frétt Reuters eru uppi vangaveltur um að gera árásir gegn ISIS í Líbýu. Þó vilja þeir aðilar fá grænt ljós fyrir nýju ríkisstjórninni áður en af því verður.

John Kerry sagði að frá síðasta fundi bandalagsins í júní í fyrra hafi ISIS misst um 40 prósent af svæði sinu í Írak og um tuttugu prósent í Sýrlandi.

Hér að neðan má sjá kort sem sýnir hvernig yfirráðasvæði ISIS hefur þróast frá því í apríl 2013 til janúar á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×