Körfubolti

Grindavík hitaði upp fyrir bikarúrslitin með sigri á Keflavík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Whitney Frazier var öflug í liði Grindavíkur.
Whitney Frazier var öflug í liði Grindavíkur. Vísir/Anton
Grindavík hitaði upp fyrir bikarúrslitaleikinn með níu stiga sigri, 75-66, á Keflavík í Domino's deild kvenna í körfubolta í dag.

Með sigrinum komst Grindavík upp í 3. sæti deildarinnar en liðið er nú með 18 stig. Keflavík er hins vegar í 5. sæti með 16 stig en þessi lið eru í harðri baráttu við Val um tvö laus sæti í úrslitakeppninni.

Whitney Frazier skoraði 24 stig og tók 13 fráköst í liði Grindvíkinga sem voru sex stigum undir í hálfleik, 40-46.

Vörn þeirra gulu var mjög sterk í seinni hálfleik þar sem Keflavík skoraði aðeins 20 stig. Á meðan gerði Grindavík 35 og vann því níu stiga sigur, 75-66.

Frazier var sem áður sagði atkvæðamest í liði Grindvíkinga en Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skilaði einnig sínu með 17 stig, 10 fráköst, fimm stoðsendingar og fjóra stolna bolta. Þá skoraði Íris Sverrisdóttir 13 stig.

Melissa Zorning var stigahæst í liði Keflavíkur með 23 stig en hún tók einnig 10 fráköst.

Grindavík mætir Snæfelli í bikarúrslitaleiknum eftir viku en næsti leikur Keflvíkinga er ekki fyrr en 28. febrúar þegar liðið sækir Val heim.

Tölfræði leiks:

Grindavík-Keflavík 75-66 (25-25, 15-21, 19-10, 16-10)


Grindavík: Whitney Michelle Frazier 24/13 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 17/10 fráköst/5 stoðsendingar, Íris Sverrisdóttir 13, Petrúnella Skúladóttir 7/5 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 7/6 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 5, Ingibjörg Jakobsdóttir 2, Viktoría Líf Steinþórsdóttir 0, Helga Einarsdóttir 0, Jeanne Lois Figeroa Sicat 0, Hrund Skuladóttir 0.

Keflavík: Melissa Zornig 23/10 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 11/6 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 11/11 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 8/10 fráköst, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 6, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 4, Bríet Sif Hinriksdóttir 3, Þóranna Kika Hodge-Carr 0, Irena Sól Jónsdóttir 0, Andrea Einarsdóttir 0, Elfa Falsdottir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×