Handbolti

Guðjón Valur aftur til Löwen

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson í leik með Löwen.
Guðjón Valur Sigurðsson í leik með Löwen. vísir/getty
Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, gengur í raðir Rhein-Neckar Löwen frá Barcelona í sumar, en frá þessu er greint á handboltavefsíðunni Handball-World í morgun. Þetta verður í annað sinn sem Guðjón Valur spilar með Ljónunum í Mannheim, en hann var einnig á mála hjá liðinu frá 2008-2011.

Guðjón Valur hefur spilað með Barcelona undanfarin tvö ár og varð Spánar- og Evrópumeistari með liðinu á síðustu leiktíð. Hann hefur verið orðaður við Löwen undanfarna mánuði.

„Löwen-liðið hefur þróast mikið frá því ég spilaði þarna síðast fyrir fjórum árum. Þetta er núna eitt af bestu liðum Evrópu og ég hlakka til að spila með því í öllum keppnum. Ég hlakka mikið til að spila aftur í þýsku deildinni og svo leið fjölskyldu minni vel þarna síðast,“ segir Guðjón Valur um verðandi vistaskiptin.

Guðjón Valur kemur til með að leysa Uwe Gensheimer af hólmi en þýski landsliðsmaðurinn heldur til Paris Saint-Germain í Frakklandi í sumar.

Stefán Rafn Sigurmannsson er einnig á mála hjá Löwen, en hann sagði við Vísi á dögunum að hann ætlar að skoða sín mál í janúar. Hann sagði þó að meiri líkur væru en minni að hann yrði áfram hjá Löwen. Íslenska vinstri hornaparið gæti því spilað saman hjá Löwen á næstu leiktíð en með liðinu spilar einnig Alexander Petersson.

Rhein-Neckar Löwen er í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar með 36, tveimur stigum meira en Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel.

Guðjón Valur er sem stendur með íslenska landsliðinu sem lauk undirbúningi sínum fyrir Evrópumótið með sigri á Þýskalandi í gær. Fyrsti leikur strákanna okkar verður gegn Noregi á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×