Tónlist

Leoncie og Elli smullu saman

Elín Albertsdóttir skrifar
 "Við höfum mikinn metnað fyrir að gera vel," segir Elli Grill – öðru nafni Elvar Heimisson.
"Við höfum mikinn metnað fyrir að gera vel," segir Elli Grill – öðru nafni Elvar Heimisson. Mynd/Anton
Elli Grill, eða Elvar Heimisson, hefur vakið mikla athygli eftir að myndband birtist með honum og söngkonunni Leoncie. Þar syngja þau saman gamalt lag hennar, Enginn þríkantur. Myndbandið þykir vel heppnað en það er unnið af Shades of Reykjavík.

Elli Grill er einn meðlima hljómsveitarinnar Shades of Reykjavík. Þegar Elli var spurður hvernig samstarf hans og Leoncie kom til, svarar hann:

„Það er skemmtileg spurning. Ég hitti söngkonuna eftir Secret Solstice-tónleikana. Shades of Reykjavík spilaði á tónleikunum sem voru mjög fjölmennir og vel heppnaðir. Þegar ég var að rölta heim á eftir, þá varð Leoncie á vegi mínum á Vöffluvagninum og við fórum að spjalla. Við spjölluðum mikið um ítaló-diskó. Hún kannaðist við bandið mitt og ég þekkti auðvitað hennar tónlist. Eftir þetta góða spjall héldum við áfram að vera í sambandi á Facebook og í framhaldinu ákváðum við að gera saman lag. Þetta gerðist allt mjög hratt,“ útskýrir Elli og bætir við að það hafi verið mjög gaman að spjalla við hana.

„Hún kom mér virkilega á óvart. Leoncie hefur gert mörg myndbönd og er sjálfstæður listamaður eins og Shades of Reykjavík. Við smullum vel saman,“ segir Elli.

Tuttugu myndbönd

Það er mikil vinna sem liggur á bak við myndbandið og skemmtilegar senur í því. Það kemur kannski á óvart en Shades of Reykjavík hefur gefið út yfir tuttugu tónlistarmyndbönd sem strákarnir vinna sjálfir að flestu leyti.

„Rútur Skæringur leikstýrði myndbandinu með mér auk þess að vera tökumaður. Við fengum hann í þetta verkefni þar sem Rútur er einlægur aðdáandi Leoncie. Hann á áritað plakat frá henni og sýndi mér ýmislegt stöff sem enginn annar á. Rútur Skæringur er engum líkur, hann er menntaður kvikmyndatökumaður, og er einstakur á allan hátt. Hann safnar ótrúlegustu hlutum og skilur til dæmis mjög vel að Leoncie er með einstakan stíl sem fáir aðrir átta sig á. Honum fannst því mjög gaman að vinna að þessu,“ segir Elli enn fremur.

Þegar hann er spurður hvort hann sé þá sjálfur orðinn aðdáandi Leoncie númer tvö svarar hann því játandi. „Það er ánægjulegt að myndbandið hafi vakið svona mikla athygli. Vonandi vekur það athygli á öðru sem við höfum gert.“

Shades of Reykjavík. Þeir eru flottir, félagarnir, sem nú hafa unnið skemmtilegt myndband ásamt indversku prinsessunni Leoncie.Mynd/Anton
Brettastrákur

Hljómsveitin Shades of Reykjavík var með frumsýningarpartí á Loftinu á miðvikudagskvöldið þar sem myndbandið var sýnt.

„Það varð allt brjálað þegar vídeóið fór í gang, góð mæting og mikill stemmari í loftinu. Þetta heppnaðist frábærlega. Meðlimir Shades eru, fyrir utan Ella, Shaman Shawarma (Emil Andri Emilsson), hann býr til sándið og rappar, Prins Puffin (Arnar Guðni Jónsson) rappari er æskuvinur Ella og þeir hafa gert brettamyndir saman. Síðan er Hermann Bridde pródúser og Máni Kjartansson sem flúrar fólk uppi á sviði.

„Við breyttum örlögum hans, útveguðum tattúvél og hvöttum hann til að flúra. Nú er hann að fara að læra þetta fag og ætlar alla leið.“

Elli er brettakappi og hefur verið á hjólabretti frá unga aldri. Hann keppir á hverju ári í Norðurlandakeppni sem fram fer í Kaupmannahöfn. „Ég stofnaði Shades of Reykjavík fyrst sem hjólabrettagrúppu. Við vorum strákar á hjólabrettum sem bjuggum til myndbönd. Ég valdi stráka með mér sem hafa hæfileika á sviði kvikmyndunar og tónlistar. Við byrjuðum fljótlega að búa til leikna sketsa. Ég er alinn upp við teknó-tónlist og er mjög hrifinn af henni en síðan hefur rappið og hipphopp-tónlistin bæst við.

Afinn var djassari

Elli er sjálfmenntaður á sínu sviði. Hann hefur unnið töluvert við kvikmyndagerð, til dæmis hjá RÚV og Pegasus. Hann gerði sína fyrstu brettamynd sumarið áður en hann fór í áttunda bekk.

„Þetta byrjaði með myndbandsvél sem ég fékk í fermingargjöf,“ segir hann. Fyrsta brettamyndin tókst svo vel að hann framleiddi strax þrjár í viðbót sem voru vinsælar á sínum tíma. „Hjólabretti og tónlist fara einstaklega vel saman og sameinast í götulist,“ segir Elli.

Þegar hann er spurður um tónlist í fjölskyldunni kemur í ljós að djassleikarinn Viðar Alfreðsson, sem var skólastjóri tónlistarskólans á Mývatni, var afi hans. „Hann var þekktur fyrir að vera orkumikill á sviðinu, rétt eins og ég.“

Elli segist í eðli sínu vera mjög rólegur þrátt fyrir líflega sviðsframkomu. „Ég hef hins vegar alltaf sankað að mér ofvirkum vinum sem hafa góð áhrif á mig.“

Genginn út

Sambýliskona Ella er Karen Elva Lundberg en þau eiga átta mánaða gamlan son, Annel Elvis Lundberg. „Við vildum hafa nafn sem gæti gengið í Skandinavíu. Ég hef oft dvalið í Kaupmannahöfn í lengri tíma til að stunda bretti og gert myndband þar. Fólk getur fundið það undir Shade of Reykjavík cph 2013.“

Strákarnir í Shades of Reykjavík eru nýbúnir að smíða stúdíó þar sem þeir vinna allt sjálfir. „Ný plata er í vinnslu og margt fleira spennandi í gangi hjá okkur. Við erum alltaf að búa til músík og fleiri tónlistarmyndbönd eru á leiðinni,“ segir Elli. Þeir munu koma fram á Iceland Airwaves. „Við seljum fatnað undir okkar merkjum til að fjármagna nýju plötuna og svo getur fólk séð hvað fleira er að gerast hjá okkur á Facebook-síðunni minni – Elli Grill.“

Þegar Elli er spurður hvort hann eigi eftir að koma fram með Leoncie, svarar hann því játandi. „Það á eftir að koma á óvart fljótlega en ég get ekki sagt frá því strax.“

Elli hefur alla tíð haft áhuga á kvikmyndagerð, hjólabrettum og tónlist. Hann segir að þetta smelli allt mjög vel saman.Mynd/Anton
Silfurtennur frá Texas

Shades of Reykjavík er með þrjú tónlistarmyndbönd á Youtube sem hafa fengið meira en sjötíu þúsund áhorf. „Ég hef fulla trú á að við séum að slá í gegn,“ segir Elli og bætir við að fólk víða um heim horfi á myndböndin. Eitt vinsælt vídeó er til dæmis Górillu Grill sem vakti mikla athygli.

Það hefur sömuleiðis vakið athygli að Elli er með silfurtennur. Hann hefur mjög gaman af litríkum búningum og hefur sinn eigin stíl. Nafnið Grill tengist þessum silfruðu tönnum.

„Gulltennur kallast grillz á ensku svo ég pantaði mér gull- og silfurtennur frá Texas í Bandaríkjunum. Ég sendi mót út og fékk góma til baka. Þetta eru eins og sogskálar sem festast við tennurnar sem síðan er hægt að taka út,“ útskýrir hann. Elli Grill er sem sagt ekki alltaf með silfraðar tennur. „Við pælum mikið í búningum, fötum og öllum fylgihlutum. Einnig í húsgögnum og umhverfi,“ segir hann.

„Við höfum mikinn metnað fyrir því sem við erum að gera og ætlum að halda því áfram,“ segir þessi litríki og skemmtilegi listamaður.

Þess má geta að Shades of Reykjavík er með útvarpsþátt á föstudagskvöldum kl. 21-23 á FM Extra á 101,5.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×