Tónlist

Agent Fresco í fyrsta sinn til Bandaríkjanna

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Nýjasta plata Agent Fresco, Destrier, er í 1. sæti vinsældalistans á Íslandi.
Nýjasta plata Agent Fresco, Destrier, er í 1. sæti vinsældalistans á Íslandi. mynd/Marino Thorlacius
Nýjasta plata Agent Fresco, Destrier, rauk upp vinsældalistann hér á landi en platan kom út á föstudag og var komin í fyrsta sæti listans strax í fyrstu viku. Listi yfir söluhæstu plötur vikunnar er tekinn saman á tímabilinu frá mánudegi til sunnudags og náði Destrier að komast í fyrsta sætið þrátt fyrir að hafa eingöngu verið í þrjá daga á tímabilinu. „Við erum orðlausir. Það er ómetanlegt að finna fyrir þessum stuðningi og að sjá það svart á hvítu að platan er að seljast og fólk er að hlusta á hana,“ segir Arnór Dan Arnarson, söngvari Agent Fresco, alsæll með viðtökurnar.

„Ég veit ekki hversu algengt það er að plata fara svona snemma í 1. sætið, það fer eftir stærð listamannsins. Þetta er glæsilegt,“ segir Haraldur Leví Gunnarsson, eigandi Record Records, sem gefur út plötuna.

Platan kom einnig út í Evrópu, í Bandaríkjunum og á helstu tónlistarveitunum. „Við finnum fyrir því að fólk er að gefa hlustuninni eins mikinn tíma og við óskuðum eftir. Við erum samt duglegir að halda okkur á jörðinni, við erum ennþá með hörku vinnu framundan og viljum búa til geggjað tónleikasjó,“ segir Arnór Dan en platan hefur fengið prýðisdóma í erlendum miðlum.

Agent Fresco hefur einnig gert samning við bandarísku bókunarskrifstofuna Infinity Concerts og þar með er fyrsta tónleikaferðalag Agent Fresco um Bandaríkin að verða að veruleika. „Líkt og útgáfufyrirtækið okkar úti þá setur þetta fyrirtæki ekki spurningarmerki við stefnuna okkar og skilur okkur og okkar ástríðu. Nú er verið að skipuleggja okkar fyrstu túr um Bandaríkin og við getum ekki beðið,“ segir Arnór Dan. Gert er ráð fyrir að sveitin fari í sína fyrstu för vestur um haf á næsta ári. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×