Tónlist

Fá útrás fyrir búningablætið

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Guðni Finnsson er forsöngvari í fyrsta laginu sem hljómsveitin Mannakjöt sendir frá sér.
Guðni Finnsson er forsöngvari í fyrsta laginu sem hljómsveitin Mannakjöt sendir frá sér.
„Þetta byrjaði þegar við vorum að fantasera með þetta í Eurovision-ferðinni í Köben í fyrra, þá kviknaði hugmyndin, að búa til eitthvert svona „gaymetalband“ og vera í flottum búningum. Þetta hefur verið að gerjast og er að verða að veruleika,“ segir Guðni Finnsson, meðlimur í nýrri hljómsveit sem ber titilinn Mannakjöt.

Sveitin sem skipuð er kanónum úr íslensku tónlistarlífi sendir frá sér sitt fyrsta lag í dag en það heitir Þrumuský og er eftir Valgeir Magnússon, sem er betur þekktur sem Valli Sport, Pétur Guðmundsson og Örlyg Smára. Hlusta má á lagið í spilaranum hér að ofan.

Heiðar Örn Kristjánsson úr Botnleðju, Óttarr Proppé úr Ham, Örlygur Smári, Sæbjörn Ragnarsson, betur þekktur sem Bibbi í Skálmöld, Valli Sport og Aron Baron skipa sveitina auk Guðna. „Við erum búnir að ákveða hvað menn ætla að gera í þessu fyrsta lagi en svo getur allt gerst. Það má eiginlega kalla þetta „boy band“,“ segir Guðni spurður út í hvaða meðlimur spili á hvað í hljómsveitinni.

Tónlistarstefna sveitarinnar er blanda af glys-rokki og diskó-danstónlist, þar sem útkoman verður glys-diskó eða gay-metall.

Í fyrsta laginu syngur Guðni forsöng en það er nýtt fyrir hann því hann er best þekktur fyrir að spila á bassa með sveitum á borð við Ensími, Dr. Spock og Pollapönk. „Þarna er gamall draumur að verða að veruleika. Ég man að fyrst þegar ég byrjaði í hljómsveit var ég ráðinn sem söngvari en á meðan menn voru að manna sig upp í að reka söngvarann sem var í bandinu var ég settur á bassann og hef verið þar síðan,“ segir Guðni og hlær.

Menn eru því að feta nýjar slóðir í hljómsveitinni. „Þarna fá menn útrás fyrir sitt búningablæti því við verðum í svaka búningum. Það er verið að vinna í búningamálum og við verðum líklega boðaðir í mátun í vikunni.“

Mannakjöt er búið að bóka sínu fyrstu tónleika en þeir verða á Hinsegin dögum um næstu helgi og kemur sveitin þar fram ásamt Agent Fresco, Amabadama, Páli Óskari og Steed Lord. „Það er gífurlega mikil tilhlökkun í bandinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×