Körfubolti

Laufléttur sigur hjá Kanínunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Axel Kárason skoraði fimm stig og tók átta fráköst.
Axel Kárason skoraði fimm stig og tók átta fráköst. vísir/andri marinó
Lærisveinar Arnars Guðjónssonar í Svendborg Rabbits unnu auðveldan sigur, 103-76, á öðru botnliðanna í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta, SISU, þegar liðin mættust í kvöld.

Svendborg var þremur stigum undir eftir fyrsta leikhlutann, 25-22, en vann annan leikhlutann, 27-20 og var 49-45 yfir í hálfleik.

Kanínurnar tóku svo öll völd á vellinum í þriðja leikhluta sem þeir unnu, 33-19, og þær höfðu svo laufléttan sigur á endanum, 103-76.

Íslenski landsliðsmaðurinn Axel Kárason kom inn af bekknum í kvöld og stóð sig mjög vel á þeim 17 mínútum sem hann spilaði.

Axel skoraði fimm stig og tók átta fráköst, þar af fjögur sóknarfráköst. Hann hitti úr eina þriggja stiga skotinum sem hann tók í leiknum.

Arnar Guðjónsson, sem er einnig aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands, er nú búinn að stýra Kanínunum til sigurs í síðustu þremur leikjum og er liðið með 16 stig líkt og Bakken Bears og Næstved í 2.-4. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×