Enski boltinn

Liðsfélagi Gylfa í spænsku D-deildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Spánverjinn Michu er búinn að finna sér nýtt félag eftir að hafa verið samningslaus síðan hann fór frá Swansea í síðasta mánuði.

Saga þessa framherja er óvenjuleg því hann sló í gegn í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2012-13 og var þá markahæsti leikmaður Swansea með 22 mörk.

Michu hafði verið keyptur sumarið á undan fyrir tvær milljónir punda frá Rayo Vallecano og þóttu það kjarakaup. Var hann orðaður við bæði Arsenal og Liverpool en Huw Jenkins, stjórnarformaður Swansea, sagði þá að Michu væri 30 milljóna punda virði.

En síðan fjaraði undan kappanum og spilaði hann síðasta leik fyrir Swansea í apríl í fyrra. Hann var í láni hjá Napoli á síðasta tímabili en gat lítið spilað vegna þrálátra meiðsla.

Samningi hans við félagið var svo loks rift í síðasta mánuði en það var þá langur vegur frá því að hann væri í myndinni hjá Garry Monk, þáverandi stjóra Swansea.

Michu byrjaði að æfa með U.P. Langreo í heimalandinu en bróðir hans, Hernan Perez, er þjálfari liðsins. Hann fær leikheimild með nýja liðinu sínu um áramótin en þess má geta að spænsku D-deildinni er skipt í sautján riðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×