Körfubolti

Martin með 17 stig í sigri LIU Brooklyn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin var drjúgur á lokakafla leiksins.
Martin var drjúgur á lokakafla leiksins. vísir/valli
Martin Hermannsson reyndist LIU Brooklyn mikilvægur þegar liðið vann eins stigs sigur á Niagra, 80-79, í bandaríska háskólakörfuboltanum í kvöld.

Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit en Martin lék 43 af 45 leikmínútum í kvöld.

Íslenski landsliðsmaðurinn var rólegur í fyrri hálfleik og skoraði þá aðeins tvö stig en Martin vaknaði heldur betur til lífsins í seinni hálfleik.

Þegar tæpar sex mínútur voru eftir af leiknum leiddi Niagra með átta stigum, 59-67, en Svartþrestirnir tryggðu sér framlengingu með góðum endaspretti.

Martin kom LIU einu stigi yfir með körfu góðri þegar 2:05 mínútur voru eftir af framlengingunni og kláraði vítaskotið að auki.

Niagra náði aftur forystunni, 78-79, þegar 14 sekúndur voru eftir en Trevon Woods tryggði LIU sigurinn með körfu fimm sekúndum fyrir leikslok.

Martin skoraði 17 stig í leiknum en 15 þeirra komu í seinni hálfleik og framlengingunni. Hann tók einnig þrjú fráköst, gaf sjö stoðsendingar og stal boltanum tvisvar. Martin hitti úr fimm af 14 skotum sínum utan af velli og nýtti sex af sjö vítaskotum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×