Gunnar Nelson var bólginn og blár er Vísir hitti á hann í Las Vegas eftir tapið gegn Demian Maia í nótt.
„Þetta er ömurlegt. Það er bara þannig,“ sagði okkar maður svekktur en hann ætlaði sér miklu stærri hluti í þessum bardaga. Maia var einfaldlega of sterkur fyrir hann að þessu sinni.
„Þetta var ekki minn dagur. Ég upplifði sjálfan mig lélegan. Mér leið ekki vel og fannst ég aldrei vera almennilegur í öllum bardaganum."
Það hægist nú aftur á siglingu Gunnars á heimslistanum og takmarkið að verða heimsmeistari næst líklega ekki á næsta ári eins og stefnt var að.
Gunnar lærði mikið er hann tapaði í fyrra skiptið á ferlinum og hann mun örugglega læra af þessu líka og koma tvíefldur aftur til leiks.

