Körfubolti

Hörður Axel nýtti mínúturnar vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson. Vísir/Getty
Hörður Axel Vilhjálmsson átti fínan leik með tékkneska liðinu Nymburk í dag þegar liðið vann öruggan sigur í Norðaustur Evrópudeildinni, svokallaði VTB-deild.

Nymburk vann þá 60 stiga útisigur á Vita frá Georgíu, 119-59, en leikurinn fór fram í Tbilisi.

Lið í VTB-deildinni koma frá þjóðum í Norðausturhluta Evrópu en þau eru allt frá Eystrasaltslöndunum til Kasakstan.

Hörður Axel lék í tæpar sextán mínútur í leiknum og var með 12 stig og 3 stoðsendingar en Hörður hitti úr 4 af 5 skotum sínum utan af velli. Hann var með þrettán framlagsstig.

Nymburk-liðið vann þær sextán mínútur sem Hörður Axel spilaði með 22 stigum.

Það voru bara tveir leikmenn Nymburk sem skoruðu meira en Hörður Axel í leiknum. Stigahæstur var Belginn Maxim De Zeeuw með sextán stig.

Hörður Axel hafði ekki skorað meira í VTB-deildinni í vetur hann var með 3,0 stig og 1,5 stoðsendingu að meðaltali fyrir leikinn.

Nymburk hefur unnið 8 af fyrstu 12 leikjum sínum í deildinni en það skilar liðinu upp í fimmta sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×