Handbolti

Öruggt hjá norsku stelpunum - Danir sendu Svía heim af HM kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristina Kristiansen og Rikke Poulsen fagna sigri á Svíum í kvöld.
Kristina Kristiansen og Rikke Poulsen fagna sigri á Svíum í kvöld. Vísir/Getty
Noregur, Danmörk, Holland og Rúmenía tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum á heimsmeistaramóti kvenna í handbolta.

Stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar í norska kvennalandsliðinu unnu sex marka sigur á Þýskalandi, 28-22, en norska liðið hefur unnið fimm leiki í röð á mótinu.

Heimakonur í danska landsliðinu unnu sannfærandi sjö marka sigur á Svíum, 26-19. Danska liðið var búið að tapa tveimur leikjum í röð á mótinu.

Dönsku stelpurnar mæta Rúmeníu í átta liða úrslitunum en rúmenska liðið vann nokkuð óvæntan þriggja marka sigur á Brasilíu, 25-22. Rúmenía vann aðeins 2 af 5 leikjum sínum í riðlakeppninni og varð fjórða liðið úr riðli norska liðsins.

Hollenska liðið vann síðan sextán marka sigur á Serbíu, 36-20, í fjórða og síðasta leiknum í kvöld.

Sextán liða úrslitin klárast síðan með fjórum leikjum á morgun. Norska liðið fylgist vel með leik Svartfjallalands og Angóla en sigurvegarinn úr þeim leik mætir norska liðinu í átta liða úrslitunum.

Hollenska liðið mætir sigurvegaranum úr leik Spánar og Frakklands.

Síðustu tveir leikir sextán liða úrslitanna eru síðan leikur Póllands og Ungverjalands annars vegar og leikur Rússlands og Suður Kóreu hinsvegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×