Innlent

Alþingi samþykkir að sjálfstætt eftirlit verði með fangelsum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Litla-Hraun er eitt af fjórum fangelsum hér á landi.
Litla-Hraun er eitt af fjórum fangelsum hér á landi. vísir/anton brink
Þingsályktun Pírata um fullgildingu OPCAT-viðaukans hér á landi var samþykkt á Alþingi í dag. Um er að ræða viðauka við Samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Fram kemur í tilkynningu frá þingflokki Pírata að í viðaukanum sé kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila sem falið er að heimsækja fangelsi reglulega sem og aðrar stofnanir sem vista frelsissvipta einstaklinga, til dæmis geðsjúkrahús.

Tilgangurinn með eftirlitinu er að koma í veg fyrir að pyndingar eða önnur grimmileg meðferð viðgangist inn á þessum stofnunum.

Í viðaukanum er kveðið á um tvíþætt eftirlit, annars vegar eftirlit á vegum alþjóðlegrar nefndar sem heimsækir ríki sem fullgilt hafa viðaukann og hins vegar eftirlit sem komið er á fót innan hvers aðildarríkis samkvæmt fyrirmælum viðaukans.

Samkvæmt þingsályktuninni sem samþykkt var í dag á ríkisstjórnin að sjá til þess að viðaukinn verði fullgildur og Ísland verði þannig skuldbundið til þess að koma á fót því sjálfstæða eftirliti sem þar er kveðið á um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×