Innlent

Sautján ára hversdagshetja breiddi úlpu yfir hjólreiðakappa eftir árekstur við snjómoksturstæki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn var á hjóli sínu nærri Sundhöll Reykjavíkur þegar snjómoksturstæki var ekið utan í hann.
Maðurinn var á hjóli sínu nærri Sundhöll Reykjavíkur þegar snjómoksturstæki var ekið utan í hann. Vísir/Daníel
Sautján ára framhaldsskólanemi reyndist hjólreiðakappa svo sannarlega vel í morgunsárið þegar sá síðarnefndi féll af hjóli sínu eftir að snjómokstursbíl var ekið utan í hjólið. Maðurinn kenndi sér meins á fæti en pilturinn beið með honum í um fimmtán mínútur og breiddi yfir hann úlpu.

Álfhildur Erla Kristjánsdóttir, móðir hins sautján ára Kristófers Breka Jóhannessonar, segir í samtali við Vísi að sonur hennar hafi verið á leið heim úr Tækniskólanum upp úr klukkan níu í morgun. Prófatíð sé í gangi og skóladagurinn í dag stuttur af þeim sökum. Hann var á gangi nærri Sundöll Reykjavíkur við Barónstíg þegar hann varð vitni að því þegar maðurinn féll af hjólinu.

Ökumaður snjómoksturstækisins varð var við það sem gerðist, stöðvaði bílinn og hringdi á lögreglu. Vegna erfiðrar færðar tók nokkra stund fyrir lögreglu og sjúkrabíl að koma á staðinn. Þá hafði Kristófer beðið með manninum og meðal annars breitt úlpu sína yfir hann.

Bauðst til að greiða honum fyrir

„Maðurinn sagðist aldrei hafa átt von á því að unglingur myndi sitja hjá sér,“ hefur Álfhildur eftir syni sínum sem var kominn undir sæng til hvílu áður en hann vinnan kallar síðar í dag. Maðurinn bauðst til að greiða honum fyrir aðstoðina en Kristófer var ekki á þeim buxunum.

Lögreglumennirnir sem mættu á vettvang tóku skýrslu af Kristófer og spurðu meðal annars hvert hann hefði verið að fara. Þegar þeir heyrðu að Kristófer hefði verið á leiðinni að ná strætó buðu þeir honum far.

Kristófer er í ungliðadeild björgunarsveitarinnar Ársæll svo segja má að honum sé björgunarstörf í blóð borin.

„Það má segja að þetta hafi verið hans fyrsta útkall,“ segir Álfhildur létt en um leið stolt af syni sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×