Handbolti

Þjálfari PSG segir að Róbert sé á förum frá félaginu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Róbert ræðir hér við Daniel Narcisse í leik með PSG.
Róbert ræðir hér við Daniel Narcisse í leik með PSG. Vísir/getty
Þjálfari PSG, Zvonimir Serdarusic, greindi frá því í samtali við Handnews.fr á dögunum að Róbert Gunnarsson væri á förum frá félaginu að tímabilinu loknu.

Róbert hefur verið á mála hjá Paris Saint-Germain frá árinu 2012 en tækifæri hans hafa verið af skornum skammti á þessu tímabili. Var hann meðal annars ekki á skýrslu í leik liðsins gegn Cesson á dögunum.

Hefur þjálfarinn treyst Igor Vori og Luka Karabatic fyrir línumannastöðunni og segir hann að Róbert fái ekki tækifæri nema annar hvor þeirra meiðist.

„Róbert fær því miður ekki að spila mikið en það eru einfaldlega tveir góðir leikmenn á undan honum í goggunarröðuninni. Ef hann kemur inn þarf ég að gera breytingar á varnarleik liðsins. Hann þarf að vera þolinmóður,“ sagði Serdarusic og bætti við:

„Þetta verður síðasta tímabil Róberts hjá PSG, við munum notast við Igor og Luka til framtíðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×