Innlent

Enn rafmagnslaust í miðbæ Akureyrar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Unnið er að viðgerð en diesel-varaaflstöð veitir Ráðhúsinu, Landsbankanum og Arion banka rafmagn.
Unnið er að viðgerð en diesel-varaaflstöð veitir Ráðhúsinu, Landsbankanum og Arion banka rafmagn. Vísir/Auðunn
Enn er rafmagnslaust í hluta af miðbæ Akureyrar en unnið er að viðgerð.

Búið er að koma lítilli varaaflstöð fyrir sem keyrir á diesel-olíu og með henni er búið að koma á rafmagni á Ráðhúsinu, Landsbankanum og Arion banka.

Skipta þarf um spenni í spennustöðinni en meta á hversu langan tíma það taki og þá hvort að það borgi sig að setja upp stærri varaflstöð sem ætti að tryggja aðgang að rafmagni á stærra svæði taki viðgerð lengri tíma.

Baldur Dýrfjörð, forstöðumaður þróunar hjá Norðurorku, sagði í samtali við Vísi að ekki væri hægt að segja til um hversu langan tíma viðgerð tæki.

Rafmagnsleysi hrjáir nú hluta af Brekkugötu (1-31), Túngötu, Geislagötu, Laxagötu, Hólabraut, hluta af Eiðsvallagötu, Fjólugötu, Norðurgötu nr. 31 og 35, Strandgötu nr. 9, 11 og 13, Gránufélagsgötu 10 og 19, Fróðasund og Glerárgata 1 til og með 7 en eins og áður sagði tryggir varaaflstöð rafmagn til Ráðhússins, Landsbankans og Arion banka.

Víða er enn rafmagnslaust á Norðurlandi og er rafmagni skammtað á nokkrum stöðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×