Viðskipti innlent

„Höfum á tilfinningunni að fólk hafi passað sig vel“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgunarsveitir voru líkt og endranær á vaktinni í alla nótt og áttu án efa sinn þátt í að lágmarka tjón vegna óveðursins.
Björgunarsveitir voru líkt og endranær á vaktinni í alla nótt og áttu án efa sinn þátt í að lágmarka tjón vegna óveðursins. Vísir/Auðunn
Forsvarsmenn tryggingarfélaganna Sjóvá, VÍS og TM segja allir að svo virðist sem að minna tjón hafi orðið í óveðrinu í gær og í nótt en búast mátti við og ekki hafi mikið af tilkynningum komið inn það sem af er degi.

Augljóst sé að fólk hafi meira og minna farið eftir tilmælum Almannavarna en þó er gert ráð fyrir að tjónatilkynningum fjölgi á næstu dögum.

Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri Sjóvá, segir að dagurinn hafi verið frekar rólegur þó að eitthvað að tjónatilkynningum hafi dottið inn á borð til þeirra en ef til vill færri en mátti búast við.

„Við höfum á tilfinningunni að fólk hafi passað sig vel og farið eftir fyrirmælum,“ en Sigurjón býst þó við að tilkynningum eigi eftir að fjölga þegar á líður, fólk átti sig betur á stöðunni og hvað hafi skemmst.

Veitingaskúr við Seljalandsfoss splúndraðist í óveðrinu í nótt.Vísir/Friðrik Þór
Ekkert stórt komið inn á borð VÍS

Það sama segir Sigrún A. Þorsteinsddótir, sérfræðingur hjá VÍS. Dagurinn hafi verið rólegur hjá þeim og engar stórar tjónatilkynningar komið inn til þeirra.

„Þetta hefur mest verið þakplötur, þakkantar og því um líkt. Fólk tekur sér yfirleitt tíma í að meta þetta og þetta á eftir að skýrast.“

Hún tekur undir ummæli Sigurjóns hjá Sjóvá um að betur hafi farið en búist var við og augljóst hafi verið að fólk hafi farið eftir tilmælum Almannavarna og fleiri um að ganga vel frá lausum hlutum og vera ekki á ferðinni að óþörfu.

„Okkar tilfinning er að fólk hafi farið eftir tilmælum og ég sá það kannski best þegar ég kom heim í gær, þá var búið að leggja flestum bílum upp í vindinn eins og mælst var til.“

Grindverk fór í gegnum bílrúðu í gærkvöldi.
Lekamál áberandi hjá TM

Það var að vísu í nógu að snúast hjá TM í morgun en þar var fyrst og fremst um að ræða tjónatilkynningar vegna vatnstjóns.

„Þetta var líflegur morgun og það voru allskonar lekamál áberandi eftir að það hlánaði,“ segir Ragnheiður Dögg Arnardóttir framkvæmdastjóri samskiptasviðs hjá TM. „Við gerum ráð fyrir að stærri málin, þessi óveðursmál, komi í ljós þegar fólk er búið að meta stöðuna.“

Öll vildu þau minna á að þótt að ekki væri spáð óveðri næstu dagana væri mikilvægt að vera meðvitaður um þær hættur sem geta skapast þegar fer að hlána líkt og í dag.

Mikilvægt væri að huga að því að tryggja það að vatn hefði greiða leið af niðurföllum, að moka af svölum og flötum þokum til að koma í veg fyrir leka.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×