Innlent

Áhyggjur af litlum fjárframlögum til lögreglunnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Innanríkisráðherra ætlar að leita leiða til að meira fé verði veitt til löggæslumála við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.

Eins og oft áður báru mörg mál á góma í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafði áhyggjur af litlum fjárframlögum til lögreglunnar í ljósi þess að það væri ein af grunnskyldum ríkisins að gæta innra og ytra öryggis borgaranna, eins og þingmaðurinn orðaði það. Ytra öryggi væri tryggt með varnarsamningi við Bandaríkjamenn og aðildinni að NATO.

„En innra öryggið er fyrst og fremst lögregla og síðan Landhelgisgæsla. Á undanförnum árum hefur löggæslan hins vegar látið mjög á sjá og það er kominn tími til að við sameiginlega stöndum að endurreisn lögreglunnar,“ sagði Óli Björn.

Lögregluna sárvantaði bæði búnað og mannskap og spurði þingmaðurinn Ólöfu Nordal innanríkisráðherra hvort ekki stæði til að tryggja aukið fjármagn til lögreglunnar í fjárlögum fyrir næsta ár.

Ólöf tók undir með þingmanninum um mikilvægi lögreglunnar. Verkefni hennar væru sífellt að aukast á mörgum sviðum, m.a. vegna aukins ferðamannastraums. Löggæsluáætlun væri nú í mótun í innanríkisráðuneytinu.

„Ég mun reyna eins og ég get núna á næstunni á næstunni til að finna meira fé til að leggja til löggæslumála. Og ég er sannfærð um að þingið verður samferða mér í þeirri vegferð,“ sagði innanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×