Fótbolti

Fyrsta tap Real Madrid undir stjórn Benitez kom í Andalúsíu | Sjáðu mörkin

Real Madrid tapaði fyrsta leik vetrarins á útivelli í kvöld 2-3 gegn Sevilla en eftir að Sergio Ramos kom Real Madrid yfir á upphafsmínútum leiksins svöruðu leikmenn Sevilla með þremur mörkum.

Real Madrid var án taps í öllum keppnum á þessu tímabili fyrir leikinn en Keylor Navas, markvörður liðsins, var fjarverandi í kvöld vegna meiðsla.

Sergio Ramos kom Real Madrid yfir á 22. mínútu leiksins með glæsilegri bakfallsspyrnu sem sjá má í spilaranum hér fyrir ofan en hann fór meiddur af velli skömmu síðar eftir að hafa lent illa á öxlinni.

Ciro Immobile jafnaði metin tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks með góðu skoti og fóru liðin inn í hálfleik í stöðunni 1-1.

Heimamönnum í Sevilla tókst að bæta við tveimur mörkum í seinni hálfleik en þar voru að verki Ever Banega og Fernando Llorente en lærisveinum Rafa Benitez tókst að klóra í bakkann á lokamínútum uppbótartíma og var þar að verki James Rodriguez.

Þetta var fyrsta tap Real Madrid í öllum keppnum á þessu tímabili en Barcelona skaust upp fyrir Real Madrid með 3-0 sigrinum á Villareal fyrr í dag.

James Rodriguez minnkar muninn á 93. mínútu:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×