Körfubolti

Árni Þór verður ekki með Hamarsstelpurnar í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Árni Þór Hilmarsson og Lárus Ingi Friðfinnsson formaður Hamars.
Árni Þór Hilmarsson og Lárus Ingi Friðfinnsson formaður Hamars. Mynd/Heimasíða Hamars
Árni Þór Hilmarsson verður ekki þjálfari kvennaliðs Hamars í Dominos-deild kvenna í körfubolta í vetur eins og stefnan var en það kemur fram að heimasíðu félagsins að Árni Þór hafi látið af störfum af persónulegum ástæðum.

Árni Þór tók við liði Hamars í sumar af Hallgrími Brynjólfssyni en Árni hefur unnið frábært starf á Flúðum og meðal annars skilað mörgum körfuboltastelpum í Hrunamönnum í yngri landslið Íslands.

Daði Steinn Arnarsson hefur tekið við liðinu af Árna Þór og mun því stýra Hamar í Dominos-deild kvenna í vetur.

„Hrunamaðurinn Árni Þór Hilmarsson hefur látið af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna af persónulegum ástæðum. Árni tók við liðinu í vor af Hallgrími Brynjólfssyni. Stjórn körfuknattleiksdeildar þakkar Árna fyrir vel unnin störf þann stutta tíma sem hann var hjá félaginu og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. Við liðinu tekur Daði Steinn Arnarsson sem er öllum vel kunnugur og býður stjórnin Daða velkominn til starfa,“ segir í fréttinni á hamarsport.is

Hamarsliðið endaði í 6. sæti af átta liðum í Dominos-deild kvenna síðasta vetur en liðið hafði styrkt sig í sumar og þar á meðal með nokkrum leikmönnum sem Árni Þór þekkir vel frá Flúðum.

Hamar hefur hafið keppni í Fyrirtækjabikarnum og tapaði á móti Skallagrími í Borgarnesi í sínum fyrsta leik. Næsti leikur og sá fyrsti undir stjórn Daða er heimaleikur á móti Keflavík á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×