Íslenski boltinn

Fjölnismenn vonast til að halda Chopart

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chopart hefur verið sjóðheitur á undanförnum vikum.
Chopart hefur verið sjóðheitur á undanförnum vikum. vísir/valli
Kennie Chopart hefur reynst Fjölnismönnum mikill happafengur síðan hann kom til liðsins í félagaskiptaglugganum í júlí.

Daninn, sem lék með Stjörnunni 2012 og 2013, var reyndar arfaslakur í fyrsta leik sínum með Fjölni sem tapaðist 4-0 fyrir ÍBV. En síðan þá hefur Chopart verið frábær og skorað fimm mörk í síðustu átta leikjum en Fjölnir hefur unnið fjóra þeirra og gert fjögur jafntefli.

Sjá einnig: Gluggakaupin gulls ígildi

Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, vonast að sjálfsögðu til að halda Chopart í Grafarvoginum.

„Við vonumst til að hann verði áfram með okkur og hann er búinn að standa sig frábærlega vel síðan hann kom. Og ég segi til hvers að breyta, við erum lið á uppleið og af hverju ekki að vera með í því,“ sagði Ágúst en að hans sögn hans gildir samningur Choparts út tímabilið.

„Samningurinn er út árið með möguleika á framhaldi,“ sagði Ágúst en samningur spænska miðvarðarins Jonathan Neftalí, sem kom til Fjölnisliðsins á sama tíma og Chopart, rennur líka út eftir tímabilið. Ágúst segir að það sé líka vilji fyrir að halda Neftalí hjá félaginu en þjálfarinn kveðst sömuleiðis mjög ánægður með hans frammistöðu.

Sjá einnig: Vel heppnuð umbreyting

Fjölnir sækir FH heim í 21. umferð Pepsi-deildarinnar í dag.

Leikurinn hefst klukkan 14:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þá verður einnig hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×