Íslenski boltinn

Engin uppgjöf hjá Leikni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Úr fyrri leik liðanna sem Fjölnir vann 3-0.
Úr fyrri leik liðanna sem Fjölnir vann 3-0. vísir/vilhelm
Nýliðar Leiknis halda lífsbaráttu sinni áfram, en þegar fjórir leikir eru eftir í deildinni er Breiðholtsliðið enn á lífi og rúmlega það. Leiknir á heimaleik á sunnudaginn gegn Fjölni sem hefur að litlu að keppa nema ná innri markmiðum sínum.

„Fjölnisliðið er gott og við verðum að bera virðingu fyrir því. Það lifir á því að vera mjög skipulagt og gera fá mistök. Við þurfum að undirbúa okkur fyrir það. Þetta er mjög gott lið en við hljótum að finna einhverja veikleika á því sem við reynum að keyra á,“ segir Davíð Snorri Jónasson, annar tveggja þjálfara Leiknisliðsins.

Leiknismenn eru í ellefta sæti, því næstneðsta, með 15 stig, þremur stigum frá Eyjamönnum. Leiknismenn hafa aðeins unnið einn leik síðan í maí og aðeins skorað eitt mark í síðustu fjórum leikjum. Það mark gerði Víkingurinn Halldór Smári Sigurðsson fyrir Breiðhyltinga er hann sparkaði boltanum í eigið net.

„Við erum ekki að skora nóg, það er rétt. En við erum að komast í fínar stöður. Við erum með fína fótboltamenn og því þurfum við bara að gera aðeins meira til að skora. Við erum búnir að spila fína leiki en ekki fá stig,“ segir Davíð, en hvernig er að halda hausnum á Leiknisliðinu í standi í gegnum svona erfiða tíma?

„Við reynum bara að hjálpast að í þessu. Við erum með skýr markmið fyrir okkur og reynum að komast nálægt þeim í hverjum leik. Við reynum bara að halda einbeitingu og stefna saman að sama markmiðinu. Takmarkið er einfalt fyrir okkur. Svo náttúrlega um leið og þú gefst upp sjálfur geturðu bara pakkað saman og farið heim,“ segir Davíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×