Handbolti

Tilfinningin var öðruvísi enda ekki í fyrsta sinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Brynju verður sárt saknað hjá HK.
Brynju verður sárt saknað hjá HK. vísir/valli
„Þetta gerðist í æfingarleik gegn Haukum í ágúst og ég er búin í aðgerð. Ég ætla að taka mér fullt ár til þess að ná mér áður en ég fer af stað á ný,“ sagði Brynja Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, en hún sleit krossband á dögunum.

Brynja var að vonum svekkt þegar í ljós kom að krossbandið væri slitið en þetta er í þriðja sinn á ferlinum sem þessi 27 árs landsliðskona lendir í þessum meiðslum.

„Þetta var allt öðruvísi en hin, ég var að slíta krossband sem hefur slitnað áður og þetta var öðruvísi. Ég var ekki viss um að það væri slitið, ég vissi það í annað skiptið sem ég lenti í þessu en þetta var öðruvísi. Ég var send í myndatöku vegna sögu minnar og þar kom þetta í ljós, ég var búin að vera með á fullu á æfingum með snertingu áður en þetta kom í ljós.“

Maður fær víst ekki önnur hné
Brynja eftir leik með íslenska landsliðinu.Mynd/Aðsend
Brynja gekk í sumar til liðs við uppeldisfélag sitt, HK, á ný en hún heldur á næstunni út til Þýskalands í skóla. Hún sagðist hafa eitthvað rætt við þýsk félög um að leika með þeim en að þær viðræður séu komnar á ís í bili.

„Ég fékk að vita að ég væri komin í skóla úti stuttu eftir meiðslin, ég var búin að heyra eitthvað í félögum úti en það var í biðstöðu á meðan ég fékk skólavistina staðfesta. Ég var við það á sínum tíma að semja við lið í Svíþjóð og komst ekki í skólann og þurfti að hætta við. Ég vildi ekki lenda í þeim pakka á ný.“

Brynja sagði að það væri svekkjandi að missa af verkefnum íslenska landsliðsins næsta árið en hún hefur verið hluti af liðinu undanfarin ár.

„Það er ömurlegt, maður stefnir alltaf að því að vera í landsliðinu og þótt ég sé búinn að missa af síðustu tveimur leikjum þá vill maður alltaf vera í hópnum. Þetta er súr tilfinning en ég stefni bara á það að koma sterk til baka á næsta ári,“ sagði Brynja sem segir huggun í því að hún hafi áður snúið aftur eftir jafn erfið meiðsli.

„Ég er búin að ákveða það að ég ætla ekkert að taka þátt á þessu tímabili og taka mér ár í endurhæfingu. Ég gæti reynt að ná þessu á einhverjum 6-7 mánuðum en ég ætla frekar að taka ár í þetta, taka gott undirbúningstímabil og vera klár á næsta tímabili. Ég þarf að gæta upp á hnén og líkamann á mér, maður fær víst ekki önnur hné.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×