Íslenski boltinn

IFK Göteborg hefur áhuga á Höskuldi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Höskuldur gæti verið á leið í atvinnumennsku eftir tímabilið.
Höskuldur gæti verið á leið í atvinnumennsku eftir tímabilið. vísir/anton
Samkvæmt Aftonbladet hefur IFK Göteborg, topplið sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, áhuga á Höskuldi Gunnlaugssyni, leikmanni Breiðabliks.

Göteborg býr sig undir mögulegt brotthvarf danska kantmannsins Sören Rieks í næsta félagaskiptaglugga en Höskuldur er einn af þeim sem gætu fyllt hans skarð.

„Ég ætla ekki að trufla Sören á þessari stundu en við munum ræða málin eftir að tímabilinu lýkur,“ sagði Fredrik Risp, umboðsmaður Rieks, í samtali við Aftonbladet.

Mats Gren, íþróttastjóri Göteborg, viðurkennir að félagið hafi augastað á Höskuldi en njósnari félagsins horfði á leiki U-21 árs landsliðsins fyrr í þessum mánuði þar sem Höskuldur var í eldlínunni.

„Við höfum fylgst með Höskuldi en hann er ekki sá eini sem við erum með í sigtinu. Þetta var gott tækifæri til að sjá tvo leiki með U-21 árs landsliðinu og einn með A-landsliðinu,“ sagði Gren við Aftonbladet.

Höskuldur fékk eldskírn sína í Pepsi-deildinni í fyrra og hefur svo slegið í gegn í ár. Höskuldur, sem er fæddur árið 1994, hefur skorað sex mörk í 17 deildarleikjum með Breiðabliki í sumar en liðið er í 2. sæti Pepsi-deildarinnar.

Þá hefur Höskuldur leikið fjóra leiki fyrir U-21 árs landsliðið og skorað tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×